Spurt og svarað

14. mars 2006

Sund með lítil kríli

Komið þið sælar kæru ljósmæður og takk fyrir mjög gagnlegan vef.

Mig langar bara til að spyrjast fyrir um sund fyrir lítil börn (ekki ungbarnasund). Hvenær mega lítil börn fara í sund. Innilaugarnar eru yfirleitt svo kaldar að maður þorir ekki að fara með börnin í sund. Þegar maður setur börnin í bað, reynir maður að hafa það akkúrat 37 gráður eins og hitamælarnir sína. Svo er líka svo erfitt að fara í heita pottana sem eru 37 gráður því það er svo kalt úti?

Með von um svör.

Kveðja, Svava.

.........................................................................................................

Komdu sæl, Svava!

Þú spyrð um hvenær megi fara í sund með lítil kríli. Eins og þú hefur heyrt um er boðið upp á ungbarnasund víða í innilaugum. Mælt er með, að börn byrji ekki yngri en þriggja til fjögurra mánaða í ungbarnasundi og myndi ég miða við þann aldur. Í innilaugum er hitastig vatnsins hærra en í útilaug auk þess sem við losnum þar við vind og útiloft eða veðrið utan dyra. Skynsemi okkar segir okkur oftast til um, hvort óhætt sé að fara með litlu krílin okkar í sund í útilaug.  Þá er að velja góðan dag, þar sem lofthitastig er yfir frostmarki og logn eða sem minnstur vindur. Skynsamlegt er að nota sundhettu á börnin til að minnka líkamshitalækkun eða kælingu, því hitatap verður hlutfallslega hvað mest í gegnum höfuðið. Svo getum við ausið öðru hvoru yfir axlirnar á þeim volgu vatninu og vera stutta stund ofan í til að byrja með og smálengja svo tímann á meðan þau aðlagast smám saman sundinu. Það gæti verið gott að hafa handklæði við höndina til að vefja þau inn í á leiðinni úr laug til búningsklefa. Þurrka þau svo strax og komið er inn og klæða þau í föt á undan okkur til að koma í veg fyrir að þeim verði kalt. Reyna að vera á þeim stað í búningsherberginu þar sem ekki er trekkur.

Vonandi svarar þetta spurningum þínum.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.