Spurt og svarað

25. maí 2007

Svæsin magakveisa hjá tveggja mánaða

Sæl verið þið

Ég er með einn 2 mánaða gutta sem byrjaði að fá magakveisu um 6 vikna og hún hefur ágerst síðan þá. Þetta er orðið það slæmt að hann sefur illa eða jafnvel ekkert (blundar bara smá) og það má ekki leggja hann frá sér eitt augnablik þá byrjar hann að gráta mjög sárt og hátt svo að ég þarf aðhalda á honum allan daginn og geri s.s ekkert nema halda á honum og hugga hann, gef honum og reyni að svæfa hann. Hann er einungis á brjósti og er mikill loftgleypir! Hann gleypir jafnvel loft bara upp úr þurru þegar hann kyngir munnvatni. Ég er orðin mjög þreytt og kærastinn minn vinnur allan daginn en reynir eins og hann getur að hjálpa mér á kvöldin og um helgar. Þrátt fyrir það er þetta farið að leika sálarlífið grátt og við erum jafn ráðþrota og læknarnir og hjúkrunarfólkið sem við höfum rætt við. Allir segja að þetta sé bara kveisa og þetta líði hjá en barnið kvelst og sefur varla á meðan við bíðum! Við fengum lyfið Phenergan til að hjálpa honum með svefn en ég las á netinu að börn undir 2 ára geti bara dáið við að taka það (hann fær 2,5ml - 4,5ml 2 sinnum á dag samkvæmt læknisráði) svo ég er ekkert mjög hrifin af því að gefa honum þetta þó það virki til að róa hann og svæfa. 

Spurningarnar mínar eru:

  • Hvert get ég leitað með hann til að fá ALVÖRU hjálp og ekki svarið „þetta líður hjá“?
  • Er lyfið Phenergan öruggt og get ég gefið það án þess að hafa áhyggjur?
  • Hvernig get ég komist hjá þessu loftgleypi hjá honum?

Takk fyrir góðan vef og fagmannleg svör.

Kveðja, Redfox.Sæl Redfox og takk fyrir að leita til okkar.

Það fyrsta sem mér dettur í hug er að leita til meðferðaraðila sem notar Bowen tækni, þ.e.a.s. ef þú ert hlynnt óhefðbundnum lækningaaðferðum.  Ég hef töluverða reynslu af þessari meðferð frá því ég var að vinna í ung- og smábarnavernd og var árangur í u.þ.b. 95 % tilvika. Bowentækni er mjög létt meðferðarform sem hefur það að markmiði að virkja lækningarmátt okkar eigin líkama. Bowen tæknir beitir mjög léttri snertingu og oftast er hægt að beita tækninni í gegnum þunn föt. Meðferðaraðilinn notar röð mjúkra rúllandi hreyfinga, sem framkvæmdar eru með þumlum og fingrum, yfir ákveðna staði á líkamanum og er markmiðið með þeim að trufla boðskipti á milli viðkomandi hluta líkamans og heilans. Þetta kemur af stað heilunarferli líkamans. Notaður er mjög léttur þrýstingur. Heilinn sendir boð á staðinn þar sem þrýstingurinn átti sér stað og leitar orsakar hans. Þetta fær líkamann í gang til að hann fari að laga og lækna sig sjálfur. Til að athuga með meðferðaraðila er best að leita eftir bowen tækni á www.leit.is eða á www.google.is

Talað er um að gefa börnum undir 2 ára aldri ekki lyfið Phenergan.  Lyfið getur haft slævandi áhrif á öndun barna og getur valdið dauða hjá börnum yngri en 2 ára.  Því er mjög mikilvægt fyrir þig að fylgja alveg þeim leiðbeiningum sem læknirinn gaf þér varðandi notkun lyfsins og fylgjast vel með aukaverkunum hjá barninu þínu.

Það sem þú getur gert til að hjálpa barninu þínu við að losa sig við loft er að gefa því góðan tíma til að ropa, þ.e. ef það á erfitt með að ropa eftir gjafir.  Einnig getur létt nudd og strokur yfir bak og kvið hjálpað barninu þínu að losa sig við loft.  Það er einnig mikilvægt að barnið tæmi vel brjóstið og fái síðustu mjólkina úr brjóstinu líka, s.s. þá fituríkari en formjólkina (þá sem kemur fyrst úr brjóstinu við hverja gjöf). Það getur valdið meiri loftmyndun í görninni ef börn fá aðallega formjólkina.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel.

Kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. maí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.