Svefn hjá 7 vikna

24.10.2006

Ég var að velta því fyrir mér hvort strákurinn minn sofi kannski of mikið. Hann fer t.d. að sofa kl.22 og svaf til hádegis með nokkrum mjög stuttum drekkupásum (10mín). Svo sofnaði hann strax aftur um 14 til svona 15:30 og svo aftur kl.17. Svo fer hann líklega að sofa aftur um 22 í kvöld. Hann vill voðalega mikið drekka allan daginn og sofnar þá yfirleitt í fanginu á mér. Fyrir nóttina drekkur hann yfirleitt mjög mikið og sofnar við gjöfina, tekst illa að venja hann af því, því ef hann hefur ekki náð að sofna nógu fast þá vaknar hann þegar ég tek brjóstið frá honum og þó að hann virðist sofa þá nær hann samt að halda geirvörtunni með þvílíkum krafti. En er þessi mikli svefn eitthvað til að hafa áhyggjur af eða kannski bara allt í lagi? Tek fram að hann þyngist og dafnar mjög vel.

Með þökk fyrir mjög hjálpsaman vef :)


Sæl og blessuð!

Það er óvanalegt að sjá hinn endann á vandamálinu. Meirihluti mæðra hafa áhyggjur vegna of lítils svefns barna sinna eða óværðar en í þínu tilfelli eru áhyggjurnar vegna of mikillar værðar. Í raun er um sama vandamál að ræða. Eðlilegar áhyggjur mæðra sf sínu barni. Hvort það sé eðlilegt og hagi sér innan eðlilegra marka. Hvort eitthvað í atferli eða útliti bendi til einhvers sem ekki á að vera. Allt ósköp eðlilegt og gott merki um að mæður séu með „radarinn“ uppi. En sem sagt svefn ungbarna getur verið ansi mismikill frá einu barni til annars og það er ekkert sem bendir til að þitt barn sofi of mikið. Maður fer ekki að ókyrrast fyrr en barn fer hreinlega að sofa af sér gjafir og í þeim tilfellum fer maður ekki að hafa áhyggjur fyrr en það fer að bitna á þyngdinni. Þú talar um 10 mín. drykkjupásur á nóttunni. Það eru fullkomnar gjafir. Á þessum aldri geta þau drukkkið 200 ml. á 5 mínútum ef þau eru í því stuðinu. Svo þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Vona bara að þér gangi vel áfram.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. október 2006.