Spurt og svarað

07. nóvember 2006

Svefn og þvaglát nýbura

Ég er með eina 7 vikna snúllu sem að hefur frá því hún var um 2 vikna sofið alla nóttina, foreldrum sínum til mikillar gleði. Í 6 vikna skoðuninni var hún að þyngjast eðlilega, ekkert gríðarlega mikið en samt ekki of lítið. Virtist bara vera meðal barn í þyngd og lengd. Hún sefur sem sagt oftast frá 23-01 til um 7-9 á morgnana í einum dúr, sem sagt um 7-9 tíma í einu. Vek hana nú oftast ef að hún er að nálgast 9 tímana. Svo tekur hún lúr eftir að hafa fengið að drekka, í 1-3 tíma. Og svo um 1-2 lúra yfir daginn. Vakir oftast svo í um 4-7 tíma um kvöldið, frekar lengur en styttra. Er því að sofa um 3-4 sinnum á sólahring í um 12-16 tíma í heild. Og liggur hún því frekar mikið á brjóstinu þegar hún vakir og þá sérstaklega á kvöldin. Hún virðist vera að dafna vel og pissar og kúkar vel yfir daginn.  Ég hef tekið eftir því að hún pissar næstum aldrei á næturnar. Er ekki óeðlilegt að ungabarn sofi í 7-9 tíma og pissi ekkert á þeim tíma? Mér finnst það heldur langur tími og er að spá hvort að hún sé bara ekki að fá nóg að drekka fyrir svefninn. Hún er samt alveg vær og góð þegar hún fer að sofa. Ég hef verið að leggja hana í rúmið á milli 23 og 23.30 þegar hún er byrjuð að sofna á brjóstinu. Það tekur hana svo um 15-30 mínútur að svæfa sig sjálfa. Er mjög róleg í rúminu, vill bara láta setja snudduna upp í sig reglulega og grætur ekki. Þannig að hún virðist ekki vera hungruð þegar hún fer í svefninn. Vona að þetta sé ekki orðið of langt og ruglingslegt hérna hjá mér:)

Með kveðju.


 

Komdu sæl

Það er eðlilegt, að þú skulir velta því fyrir þér, hvort það sé eðlilegt að barnið pissi ekki á næturna og hvort svefntíminn yfir nóttina sé of langur. Meðaltalssvefn hjá sex vikna gömlu barni er talinn vera 14-16 klst. á sólarhring, sem síðan eru eðlileg frávik frá. Þú segir dóttur þína sofa
12-16 klst. á sólarhring, sem nær því meðaltali með smávægilegu fráviki. Þú veltir því líka fyrir þér, hvort 7-9 klst. samfelldur svefn sé of langur fyrir barn á þessum aldri. Svona ung börn þurfa yfirleitt að ná að drekka að meðaltali sex til átta sinnum á sólarhring og þau ná því varla ef það líða meira en sex tímar á milli gjafa. Þegar við veltum fyrir okkur, hvort barn er að fá næga næringu eða hvort barn drekkur nóg, þurfum við að hafa í huga nokkra þætti svo sem, hvernig dafnar og þyngist barnið? Fylgir barnið vaxtarkúrfunni sinni? Fær barnið sex til átta gjafir á sólarhring? Hvernig er þvagið á litinn? Það á að vera glært eða ljósgult. Ef það er sterkgult, þarf barnið meiri vökva. Bleytir barnið sex til átta bleyjur á sólarhring? Það er oft erfitt að meta einnota bleyjurnar en betra að fylgjast með þvaglátum í taubleyjunum. Er barnið vært og ánægt á milli gjafa? Ég skynja að dóttir þín sé það. Mér finnst ekki eðlilegt, að barnið skuli vera þurrt eftir nóttina (en í lagi, ef það gerðist einstöku sinnum) og myndi því bæta einni gjöf inn í um nóttina t.d. undir morgun, eftir fimm til sex tíma svefn hjá barninu. Það er ekki víst að stelpan glaðvakni við það, heldur er oft hægt að lauma upp í þau brjóstinu þó þau séu hálfsofandi, þannig að þau haldi áfram að sofa, eftir gjöfina. Þannig myndi nætursvefninn halda áfram að vera lengsti dúrinn hennar á sólarhringnum. Vona, að þetta svari þínum vangaveltum, annars getur þú ráðfært þig við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni ef þú hefur áfram áhyggjur.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
7. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.