Svefnstellingar og böð

12.12.2008

Hvenær er í lagi að barn fari að sofa á maganum?  Ég er með eina 10. mánaða sem snýr sér svo oft yfir á magann og setur stundum rassinn upp í loftið en stundum liggur hún bara á maganum.  Ég sný henni alltaf við þegar ég tek eftir þessu, en hún er ekki alltaf sátt við það.  Hún finnur líka stundum eitthvað sem hún getur troðið andlitinu inn í á meðan hún sefur, t.d kodda, sæng eða bangsa.  Eru einhver dæmi um að svona geti leitt til köfnunar? 

Og að lokum: þá á hún það til að reyna að stinga hausnum ofan í vatn t.d þegar hún er í baði.  Hún er ekki vön sundi eða nokkru slíku og ég er hrædd um að hún muni draga inn andann ef þetta tekst hjá henni (munaði ekki miklu einu sinni) og ég er að spá, hvernig get ég komi í veg fyrir að hún andi að sér vatni?  Eða kennt henni svona ungri hvernig á að hegða sér í kring um vatn?

Með fyrirfram þökk fyrir mjög góða síðu :)


Komdu sæl.

Þegar börn eru farin að velta sér sjálf í rúminu og ráða sjálf sínum svefnstellingum hættir maður að skipta sér af þeim og leyfir þeim að sofa eins og þeim finnst best.  Það eru litlar líkur á að hún kafni í sæng eða kodda svona gömul og börnum finnst oft mjög gott að hafa eitthvað alveg ofan í andlitinu á sér þegar þau sofa.  Þú skalt því reyna að hafa engar áhyggjur af þessu.

Það verður alltaf að gæta fyllstu varúðar þegar börn eru í kringum vatn og þau ættu auðvitað aldrei að vera ein neinstaðar í kringum vatn, jafnvel þó það sé ekki nema nokkrir sentimetrar að dýpt.  En auðvitað má hún prófa að fara í kaf undir eftirliti og hún getur lokað fyrir vitin sín þannig að vatn fari ekki ofan í lungu ef hún er mjög stutta stund ofan í vatninu.  Eftir því sem hún þjálfast getur hún svo verið lengur.  Sundnámskeið geta verið sniðug til að fá þjálfun og leiðbeiningar.

Gangi ykkur vel, kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. desember 2008.