Spurt og svarað

14. mars 2005

Svefnstellingar og vindgangur

Sæl!

Ég á 7 vikna gamla dóttir. Í gær sofnaði hún á bringunni á mér og lagði ég hana á magann í rúminu og hún svaf alveg ótrúlega vel.  Hún hefur sofið á hliðinni frá því að hún fæddist. Er í lagi að leyfa henni að sofa á maganum eða á ég að halda mig við hliðina.

Einnig langar mig til að spyrja út í vindgang.  Hún er eingöngu á brjósti og ropar ekki mikið eftir gjöf en á nóttunni er hún oft að ambra og þarf svo oft að prumpa ansi mikið.  Mér finnst eitthvað svo ótrúlegt hvernig allt þetta loft getur rúmast í þessum litla líkama.  Ætti ég að reyna að gefa henni lengri tíma til að ropa eða er þetta kannski bara hennar leið til að losa loft.

........................................................................

Sæl og blessuð!

Varðandi svefnstellingar ungbarna
Rannsóknir hafa sýnt fram á það eru minni líkur á vöggudauða ef ungbörn sofa á bakinu en líkurnar á vöggudauða aukast ef ungbörn sofa á maganum. Samtök barnalækna í Ameríku (AAP) fóru að ráðleggja foreldrum að leggja ungbörn til svefns á bakið árið 1992. Á þeim tíma voru um 70% barna lögð til svefns á magann þar í landi. Í dag eru um 20% barna þar í landi lögð til svefns á magann og tíðni vöggudauða hefur lækkað um 40% á þessu tímabili. Það er því óhætt að fullyrða að svefnstellingar ungbarna skipta máli og greinilegt að þessi áróður sem miðar að því að ungbörn séu lögð til svefns á bakið hefur skilað góðum árangri.  Ungbörn sem eru látin sofa á hliðinni eru ekki eins örugg og á bakinu en þó öruggari en á maganum. Ef ungbörn eru lögð til svefns á hliðina þarf að gæta að því að þau geti ekki rúllað yfir á magann.

Þú ættir því að láta dóttur þína sofa á bakinu eða á hliðinni. Hins vegar getur verið gott að leyfa henni að liggja svolítið á maganum þegar hún er vakandi en hún ætti ekki sofa þannig án eftirlits.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

Varðandi vindganginn
Það er vindgangur í öllum börnum og öllum fullorðnum líka ef út í það er farið. Annað væri náttúrlega óeðlilegt og skapaði mikil óþægindi. Vindgangur getur gefið öllum óþægindi ef í meltingarveginum er eitthvað sem fer illa í viðkomandi eða er illmeltanlegt.

Börn sem eru eingöngu á brjósti finna yfirleitt lítið fyrir vindgangi og hann truflar þau lítið sem ekkert. Það er líka algengt að börn á brjósti ropi lítið eða ekkert. Sum börn eru þó klaufalegri að drekka en önnur, gleypa mikið loft, ropa mikið og gubba gjarnan líka. Þeim þarf að hjálpa sérstaklega til að losa loftið.

Í þínu tilfelli heyrist mér ekkert óeðlilegt vera á ferðinni og eins og þú orðar það sjálf er þetta líklega hennar leið til að losa loft. Þú getur prófað að banka og strjúka fastar þegar þú ert að reyna að fá hana til að ropa (það hefur enga þýðingu að reyna mjög lengi). Það hefur líka gefist mörgum vel að láta ropa snemma í gjöf. Dugar sérlega vel á börn sem eru með mikinn gleypugang í byrjun gjafar. Snemma í gjöf þýðir þá 1-2 mín. eftir að gjöf hefst. En þú skalt ekki vænta mikils árangurs. Það eru mörg börn sem skila loftinu að mestu neðri leiðina og það er bara í fínu lagi.

Með bestu ósk um velgengni,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
14. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.