Svefnvenjur

24.02.2005
Sælar - Ég er með 11 vikna gutta og ég var að spá í hvenær ég ætti að innleiða svefnvenjur hjá honum.  Ég er búin að lesa mig til og það er misjafnt hvað sagt er um aldur.  Eins langar mig að vita hvort það sé í lagi að láta börn gráta þegar þau eiga að fara að sofa.  Og að lokum, hvernig get ég kennt honum að "svæfa sig sjálfur "
 
Bestu kveðjur
 
Strákamamma
 
                              ........................................................................................
 
Komdu sæl strákamamma og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Ég vil benda þér á að lesa um svefnvenjur hér á síðunni undir Sængurlega.  Venjulega er talað um að góður tími til að venja börn á ákveðna siði í kringum svefn sé um þriggja mánaða þannig að þú ert að komast á tíma með strákinn þinn.  Ef þú veist að allt er í lagi þegar hann er að fara að sofa, þ.e. hann er ekki svangu, blautur, fötin að meiða hann eða annað slíkt er allt í lagi að hann gráti í eina til tvær mínútur fyrst en svo ferðu aftur inn til hans og huggar hann.  Með tímanum má svo lengja þennan tíma í þrjár mínútur, en þú verður að fara inn og hugga hann inn á milli - helst án þess að taka hann úr rúminu og alls ekki fara með hann fram úr herberginu.  Með þessu móti lærir hann að sofna sjálfur.
 
Gangi þér vel.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 24.02.2005.