Sýgur þumalinn, er að verða 4. mánaða

16.01.2006

Góðan daginn!

Dóttir mín sem er að verða 4. mánaða hefur aldrei viljað snuð en er farin að taka upp á því að sjúga á sér þumalinn. Er þetta eitthvað sem ég þarf að laga strax eða er þetta bara alveg í lagi (þetta er alla vega voða sætt). Ég vil gjarnan losna við að senda hana í tannréttingar út af þessu en ég hef heyrt marga segja að þetta sé vont fyrir tennurnar og bitið. Eruð þið með einhverja töfralausn til að hún fari að taka snuðið því hún hefur geysimikla sogþörf.

Með fyrirfram þökk.

..............................................................................................


Sæl og blessuð!

Það er staðreynd að mörg börn sjúga þumalinn strax á fósturstigi. Sogviðbragðið er meðfætt og í raun lífsnauðsynlegt til að barnið geti sogið brjóstið eða pela til að fá næringu. Sogþörfin er sterkust fyrstu sex mánuðina en ef börn sjúga fingurna, byrja þau oftast á því á fyrstu þremur mánuðunum (og hafa kannski gert það líka í móðurkviði ). Þetta er alveg eðlilegur hlutur og ekkert sem þú ættir að gera til að koma í veg fyrir það.

Ákveðið hlutfall af börnum heldur þessu áfram næstu mánuðina, flest hætta því að sjálfu sér á fyrsta ári en þau sem halda áfram hætta flest á aldrinum 2-4 ára. Það er ekki talið að þetta hafi slæm áhrif á tannstöðu nema þau sjúgi enn þumalinn eftir tanntöku fullorðinstanna ( 6-7 ára ). Varðandi það að fá börn til að taka snuðið, þá er engin töfralausn við því, sumir prófa allar tegundir á markaðnum en barnið tekur það ekki samt! Það eru skiptar skoðanir á því hvort börn eigi yfirhöfuð að nota snuð en það er a.m.k. ráðlagt að hinkra með það þar til barnið er búið að ná góðu valdi á sogi brjóstsins til að það trufli ekki brjóstagjöfina.

Ég vona að þetta svar hjálpi, gangi þér vel!

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi,
16. janúar 2006.