Tannburstun 3ja mánaða

07.09.2007

Góðan dag!

Dóttir mín er 3 mánaða og 3 vikna gömul og fyrsta tönnin er farin að koma í ljós. Nú er ráðlagt að byrja strax að bursta tennur með flúortannkremi, en ég er á báðum áttum hvað skuli gera þegar barnið er þetta ungt.  Eina fæðan sem hún er að fá er brjostamjólk og hún er nýfarin að fá AD dropana þar sem þeir fóru mjög illa í maga.

Hvað mælið þið með að ég geri?

Með kveðju.

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er mikilvægt að byrja strax að bursta tennur þegar þær koma, bæði til að varna tannskemmdum og einnig til að venja barnið á tannburstun.  Þó svo að dóttir þín sé einungis að fá brjóstamjólk þá er nauðsynlegt að bursta, þar sem brjóstamjólkin hefur töluvert magn af mjólkursykri.  Mælt er með að nota mjúka tannbursta og flúortannkrem, en einungis lítið. Til eru bæði tannkrem og tannburstar fyrir börn 0-2 ára.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. september 2007.