Tíðni fósturláta

21.04.2004

Heil og sæl.

Ég var að lesa greinina ykkar um fósturlát, eða Meðganga eftir missi dálkinn, þar setjið þið upp tíðni fósturláta og skiptingu fósturláta eftir stigunum þremur. Það sem mér finnst vanta í greinina er betri skilgreining á tíðni fósturláta innan þessara þriggja tímabila, en ekki bara svona almennt á meðgöngunni allri.

Með fyrirfram þökk.

.........................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina.

Það má kannski segja að það hafi verið með ráðum gert að skilgreina tíðnina ekki nánar því rauði þráðurinn í því lokaverkefni sem pistillinn er unninn úr er að upplifun af missi á meðgöngu sé einstaklingsbundinn og þar skipti tímasetningin á meðgöngunni ekki endilega mestu máli, þ.e. hvort missirinn feli í sér nokkurra vikna fóstur eða nær fullburða barn.  Okkur er hins vegar mikilvægt að leita svara og bera okkur saman við aðra, reyna að finna hvort við föllum undir ,,normið”, kannski af því að upplifunin af missi á meðgöngu fylgir ósjaldan sú tilfinning að maður sé mjög einangraður með þessar tilfinningar – einn í heiminum með sinn missi. 
 En til að gefa þér og öðrum hugmynd um algengi þá er oftast talað um að 10-20% meðgangna endi með fósturláti á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar, ein heimild gefur upp 15-20% á fyrri hluta meðgöngunnar.  Þetta þýðir að um 440-1000 fósturlát verða á hverju ári á Íslandi.  Hér er aðeins verið að tala um þær þunganir sem eru greindar.  Ef við tökum einnig með þá getnaði sem misfarast og enginn veit um fer hlutfallið upp í helming eða jafnvel þrjá fjórðu.  Á öðrum þriðjungi meðgöngu eru fósturlát eða andvana fæðingar sem betur fer mjög sjaldgæf.  Sem dæmi má nefna að á Meðgöngudeild Kvennadeildar Landspítalans hafa 30-40 konur endað meðgöngu sína á 13.-24.  viku sl. ár, örfá slík tilvik koma upp á hverju ári á Kvennadeild FSA.  Burðarmálsdauði er skilgreindur þannig að dauða barns ber að þegar meðganga hefur náð fullum 22 vikum eða að það er orðið 500g að þyngd, eða á fyrstu vikunni í lífi þess. Andvana fæðingar voru 14-25 á ári á árunum 1998-2001 og á fyrstu viku dóu 5-10 börn á ári á þessu sama tímabili.  Í sjónvarpsviðtali nú á dögunum fullyrti einn lækningaforstjóra Landspítalans að íslenskar tölur um burðarmálsdauða væru þær lægstu sem þekktust í heiminum. 

Með von um að þetta svari einhverju,                                            
bestu kveðjur,                                                                           
Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur - 21.04.2004.