Spurt og svarað

29. janúar 2004

Tómur fóstursekkur...

...mig langaði að fá frekari upplýsingar um tóma fóstursekki. Nú ég er komin rúmar 7 vikur frá seinustu blæðingum og í sónar í morgun sást að fóstursekkurinn er líklega tómur. Ég er tæplega fertug og læknirinn minn sagði að þetta væri algengt hjá konum um fertugt. Mér finnst svo skrýtið hvað maður heyrir lítið um þetta fyrst að þetta er svona algengt. Getur þú frætt mig eitthvað um þetta?

..................................................................................................................................................

Það hlýtur að vera erfitt að fá svona fréttir, sérstaklega þegar um fyrirbæri er að ræða sem er algjörlega nýtt fyrir þér.  En það er satt sem læknirinn þinn segir, þessi tegund fósturláts er algengari hjá konum eftir því sem lengra líður á frjósemisskeiðið og er sterklega tengd litningagöllum en eins og þú kannski veist eykst tíðni litningagalla með hækkandi aldri.  Fóstursekkurinn virðist tómur því fósturvísirinn hefur dáið snemma í meðgöngunni en kroppurinn ekki meðtekið það og haldið meðgöngunni áfram.  Þetta flokkast því undir það sem í daglegu tali er kallað dulið fósturlát.

Fósturlát hafa löngum verið ,,tabú”, eitthvað sem konur ræða lítið sín á milli og er lítið í umræðu í þjóðfélaginu.  Margar og flóknar ástæður liggja þar að baki.  Oft fylgir mikil sorg brostnum vonum sem voru bundnar barninu en þessi sorg fær oftar en ekki viðurkenningu.  Þeir sem ekki hafa reynt hafa oft lítinn skilning og geta látið út úr sér vel meintar athugasemdir sem í eyrum syrgjandans hljóma skelfilega; t.d ,,það gengur bara betur næst” eða ,,gott að þetta gerðist núna en ekki þegar færi að sjást á þér” og álíka huggunarorð eða athugasemdir gera lítið úr missi móðurinnar og hún lærir snemma að bera sorg sína í hljóði.  Sumar konur finna jafnvel til skömmustutilfinningar þar sem þeim finnst þær vera ófullkomnar konur að geta ekki búið til heilbrigt barn eða gengið með það.  En vonandi er þetta að breytast.  Hluti af því eru kjarkaðar konur eins og þú sem leita svara við spurningum sínum og vekja umræðu – takk fyrir það.  Gangi þér vel!

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 29. janúar 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.