Tveggja mánaða á ferðalagi

13.10.2006
Góðan daginn, ég og konan mín erum að spá í að gista í sumarbústað yfir jólin með fjölskyldu. Málið er að við erum að fara að eignast okkar fyrsta barn og mun það vera rúmlega 2 mánaða um jólin. Er óhætt að fara með svona ung börn á staði þar sem kannski er ekki eins fljótlegt að fá læknisaðstoð og inniheldur kannski 2 tíma keyrslu?
Takk fyrir aðstoðina.

 
Komdu sæll og takk fyrir að leita til okkar.
 
Það er mjög erfitt að svara þessu þar sem þetta verður alltaf á endanum ykkar ákvörðun.  Hvað treystið þið ykkur til?  Það eru margir þættir sem þarf að hafa í huga eins og heilsufar barnsins fram að jólum, veðrið, bíllinn, bústaðurinn, er góður hiti í bústaðnum, aðstaða í bústaðnum fyrir móður og barn við gjafir (ég geri ráð fyrir að barnið verði á brjósti) o.s.frv.  Ef hægt er að tryggja barninu góðan hita á ferðalögum og í bústaðnum og heilsufar barnsins er gott þá er í rauninni ekkert að því að fara í ferðalag.  Heilsugæslustöðvar eru um allt land ef þið þurfið á læknisaðstoð að halda eða þá að fara bara snemma af stað til læknis ef barnið veikist.
 
Gangi ykkur vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
13.10.2006.