Spurt og svarað

10. desember 2008

Tveggja mánaða og sefur lítið

Sælar kæru ljósmæður.

Ég er með 2 mánaða gamlan dreng sem hefur sofið lítið allt frá fæðingu. Hann vaknar á 2-3 tíma fresti á nóttunni, stundum aðeins á klukkustundar fresti. Hann sefur laust og stutt á daginn, einna best úti í vagni, sem gerir það að verkum að ég dúða hann út þótt það sé bylmingsfrost og rok, því auðvitað vil ég að hann sofi eitthvað. Er þó alltaf skíthrædd um hann þarna úti í vagni og vildi helst að ég gæti vanið hann á að lúlla inni hjá mér þar sem ég get fylgst með honum. Ég er hins vegar orðin gífurlega þreytt á þessum stuttu næturdúrum og það mundi bjarga öllu fyrir okkur bæði ef hann næði einum löngum næturlúr á nóttu, kannski 4 eða 5 tíma. Er það óraunhæft fyrir svona lítið barn? Mér finnst svo margar vinkonur mínar með börn á svipuðum aldri jafnvel tala um að þeirra börn sofi allt frá 6-7 tímum upp í 10-12 tíma á nóttu án drekkupása! Ég er alveg að gefast upp, gæti hann mögulega sofið lengur í einu á nóttunni ef ég prufa að gefa honum þurrmjólk? Hann er bara á brjósti og það hefur gengið svona upp og ofan. Ég tek það fram að mér hefði aldrei dottið í hug að gefa þurrmjólk nema af því að ég er gjörsamlega úrvinda og að gefast upp. Finn meðal annars að mjólkin mín er að minnka og samband okkar hjóna líður einnig fyrir þetta. Ætti ég að fara með hann í svefnráðgjöf á Landspítalann, taka þeir foreldra svona ungra barna í ráðgjöf? Eða er ég að gera of mikið mál úr þessu, er þetta kannski bara eðlilegt og ég ætti að halda þetta út?


Sæl!

Ég myndi byrja á þvi að gefa barninu ábót þ.e.a.s þurrmjólk og athuga hvort að barnið verður ekki sáttara á nóttunni. Samt sem áður er best að barnið drekki brjóstið eða brjóstin vel og fái svo ábót til að halda hámarksörvun á brjóstin svo að mjólkin detti ekki niður. Þú sjálf verður að nærast og hvílast vel ef mjólkurframleiðslan á að vera góð en einnig get ég bent á að hægt er að kaupa mjólkuraukandi te í heilsubúðum. Þetta gæti verið nóg til að rjúfa þennan vítahring ef þetta lagar ástandið ekki bendi ég þér á að tala við ungbarnaverndina og fá frekari ráð. Varðandi að sofa úti eða inni þá er það algerlega þitt að ráða því en ekki vegna þrýsting frá utanaðkomandi. Gerðu það sem þér líður best með.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. desember 2008.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.