Spurt og svarað

04. janúar 2009

Umönnun ungabarns eftir reykingar

Sælar!

Ég er nemi og er að byrja prófatörn núna. Af þeim sökum hefur móðir mín verið mikið með 4 mánaða barn mitt og kemur til með að aðstoða mig áfram. Eins og aðrir reykingamenn tekur hún öllu varðandi reykingar mjög illa. Þess vegna líður manni illa með að ræða þá hluti við hana. Engu að síður ræddi ég við hana áður um reykingar varðandi barnið. Ég sagði henni frá áhyggjum mínum um áhrif þess að hún reykti í útidyrahurðinni þegar barnið væri á staðnum. Hún virti það og sagðist auðvitað vilja syni mínum hið besta. Hún hefur síðan þá farið út til að reykja. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að eftir reykingarnar þvær hún sér ekki um hendurnar og það kemur lykt með henni þegar hún kemur inn. Ég stend mig að því að líða illa þegar hún hugsar um barnið og það kemur svo á skjön við þá staðreynd að hún hefur einstakt lag á honum og elskar hann svo mikið. Það er enginn sem ég treysti betur fyrir honum heldur en henni því hún er svo róleg og þolinmóð við hann og ég tek við honum afslöppuðum og ánægðum á þriggja tíma fresti þegar ég kem til að gefa honum. Mig vantar að vita hvort þessi lykt og það að hún þvoi ekki af sér reykinn geti farið í litla krílið mitt. Hún er auðvitað að kyssa hann og kjá við hann líka þannig að hún fer að vitum hans með "leifarnar" af reykingunum. Ég veit að það liggur ljóst að auðvitað eigi ég bara að biðja hana um þetta en ég vil heldur ekki vera
með óþarfa hnýtingar og ýta á punkta sem eru óþægilegir henni ef það er óþarfi. Ég bið ykkur vinsamlega um að svara þessari fyrirspurn minni sem allra fyrst.

Kveðja, Kristín.


Sæl Kristín!

Áhyggjur þínar varðandi reykingar í útidyrunum voru mjög réttlátar. Á þann hátt hefði barnið þitt „reykt óbeint“.  Það hefur verið sýnt fram á að óbeinar reykingar barna, þótt í litlu magni sé, eru skaðlegar heilsu og líkamlegum þroska hjá ungum börnum. Meira um þetta getur þú lesið á http://www.reyklaus.is . Á þeirri síðu er einnig góður bæklingur um óbeinar reykingar (sem þú getur sótt í ungbarnaverndina líka).

Hitt er annað mál að það að móðir þín reyki úti dregur verulega úr hættunni og að öllum líkindum hafa „óhreinindin“ eins og lyktin af henni óveruleg áhrif á barnið.  Börnin þurfa að anda að sér reyk til þess að hann sé þeim skaðlegur.

Það er frábært að heyra að þú getir verið svona örugg með barnið þitt í vistun hjá ömmu á meðan þú stundar námið þitt!

Gangi þér vel í náminu og barnauppeldinu. Þú ert greinilega að gera góða hluti!

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.