Spurt og svarað

18. mars 2007

Undirbúningur fyrir ljósmæðranám

Ég hef verið að hugsa mikið um að fara í  ljósmæðranám. Málið er bara að ég er ekki sterk í efnafræði, stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði en er sterkari í félagsfræði og sálfræðigreinum. Ég veit að ég fer aðeins út fyrir efni síðunnar hérna, en mér datt enginn annar staður í hug til að spyrjast fyrir á.

Ég er ennþá aðeins í framhaldsskóla og langar að vita hvaða grunnur sé bestur fyrir háskólanám ef ég lærði ljósmóðurina. Starfsbraut? Náttúrufræðibraut?

Endilega svaraðu eða bentu á einhverja sem að hafa svör.

Þakka þér innilega fyrir.

 


 

Sæl og blessuð og takk fyrir að leita til okkar!

Eins og staðan er í dag þá er gerð krafa um próf í hjúkrunarfræði til að geta fengið inngöngu í ljósmæðranám hér á landi. Þannig að þú þarft því fyrst að undirbúa þig fyrir hjúkrunarnámið. Það er gott að þú sért farin að huga að þessu í tíma. Ég er nokkuð viss um að nemar í hjúkrunarfræði koma af flestum námsbrautum framhaldsskólanna þó að eflaust séu einhverjar brautir sem henta betur sem undirbúningur fyrir það nám.

Ég treysti mér ekki til að svara þessu en tel að þú ættir að geta leitað til námsráðgjafa í þínum skóla til að fá svör við þessu nú eða hjá hjúkrunarfræðideildum í Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri.

Ég hvet þig til að láta draumana rætast með því að vinna markvisst að settu marki.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.