Spurt og svarað

06. maí 2013

Eru smellir í liðamótum eðlilegar á meðgöngu?

Sælar
Ég hef verulega verið að velta fyrir mér hvað veldur því að það smellur í flestum, ef ekki öllum, liðamótum í líkamanum hjá mér síðustu 2-3 vikurnar, ég er komin 13 og hálfa viku á leið í fyrstu meðgöngu og þetta fór að byrja sérstaklega fyrir svona 2-3 vikum og hefur bara aukist ef eitthvað er, en þetta er ekkert sársaukafullt. Ég hef heyrt af því að liðbönd geti slaknað í líkamanum á meðgöngu en ég hélt að það byrjaði ekki svona snemma á meðgöngunni og því er ég mjög forvitin. Það hefur alltaf einstaka sinnum smollið í hægri mjöðminni á mér, en ég hef alltaf talið það vera vegna þess að sá fótur er agnarlítið styttri en sá vinstri, en núna smellur í hryggjarliðum, báðum mjöðmum, hnjám, öxlum, fingrum og úlnliðum og þá sérstaklega þegar ég hef setið í einhvern tíma eða þegar ég vakna á morgnana og þetta veldur mér smá áhyggjum, hvað sé að valda þessu. Ég fann ekkert í spurt og svarað hjá ykkur og var að velta fyrir mér hvort þið gætuð haft einhver svör við þessu? Ég er að fara í þessari viku og tala við ljósmóður í fyrsta skiptið og á eftir að spyrja út í þetta þar, en datt í hug að skella þessu hér inn ef þið skilduð hafa svör og ef fleiri vildu kannski vita þetta líka. æðisleg síða hjá ykkur, hef leiðað mér margs fróðleiks hér síðustu vikurnar.Sæl vertu og takk fyrir bréfið.
Gott að heyra að síðan okkar nýtist vel, en þið lesendur og spyrjendur hafið mikið um það að segja hvernig til tekst.
Hvað varðar spurningu þína um áhrif hormóna á liði og liðbönd í líkamanum þá er það staðreynd að strax í upphafi meðgöngunnar byrja hin svokölluðu meðgönguhormón að hafa áhrif á líkamann á ýmsan hátt. Hormónið relaxín er eitt þeirra. Styrkur þess í líkamanum er mestur í byrjun meðgöngunnar og minnkar svo eftir því sem líður á hana. Relaxínið virkar meðal annarst til að mýkja upp liði og liðbönd í mjaðmagrindinni, en hefur að sjálfsögðu áhrif á alla liði líkamans og eins og þú nefnir og því er meiri hreyfing í liðum en þú átt að venjast. Það er samt eins og með svo margt annað á meðgöngu að einkenni sem konur finna fyrir eru mismikil eftir einstaklingum. Það getur því verið eðlilegt hjá þér að þú finnir meira fyrir þessu en aðrar konur. Ég bendi þér hér á ágætar greinar um hreyfingu á meðgöngu og hvers ber að varast, ekki síst ef liðir og liðbönd eru mjög viðkvæm:
Er óhætt að stunda líkamsrækt á meðgöngu? og Líkamsrækt og hreyfing á meðgöngu .
Vona að þetta svari spurningum þínum.


Bestu kveðjur,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir,
6. maí 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.