Ungbarn í sund

16.04.2012

Góðan daginn og kærar þakkir fyrir að nenna að halda úti þessum gríðarlega gagnlega vef!


Ég hef einhvers staðar lesið að sólarvörn sé í raun ekki ætluð fyrir börn undir 6 mánaða aldri, þangað til þá eigi maður bara að halda þeim í skugga og ekkert hafa þau í beinu sólarljósi. En hvernig er með sundferðir og lítil börn? Drengurinn minn er 3 mánaða núna og nú þegar fer að vora langar mann að fara með eldri systur hans í sund í góða veðrinu sem vonandi kemur. Lendi ég þá í tómum vandræðum með litla manninn, eða á ég bara að smyrja á hann sólarvörn og drífa hann líka í setlaugina?


Góðan dag!


Það þarf að vera MJÖG gott veður til að fara með 3ja mánaða barn í útilaug, kannski frekar spurning um að láta hann sofa í vagni á meðan hinir fara ofaní.


Ef þið farið samt í sund með hann er ráðlagt að bera á hann sólarvörn án ilmefna með factor a.m.k. 25-30.  Gott er líka að vera með húfu úr ullargarni til að verja hann gegn kulda og sól.


Kveðja,


Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. apríl 2012.