Ungbarnasund og eyrnabólga

04.11.2004

Ég er að velta fyrir mér hvenær það sé óhætt að fara með börn í ungbarnasund. Það er svo misjafnt sem maður heyrir og ég veit ekki hverju ég á að trúa. Svo segja sumir að það sé ávísun á eyrnabólgu að fara með barnið sitt í sund, er eitthvað til í því?

Takk, Una.

.........................................................................


Komdu sæl Una, og takk fyrir að leita til okkar

Það hefur verið talað um, að hæfilegt sé að byrja með börn í ungbarnasundi, þegar þau eru orðin þriggja til fjögurra mánaða gömul. Annars er best fyri þig að ræða það við þann sundkennara, sem þú velur. Það getur hugsast, að það sé mismunandi eftir kennurum. Varðandi tengsl eyrnabólgu og ungbarnasunds hef ég ekki rekist á rannsókn um en það er einfaldast fyrir þig að spyrja viðkomandi sundkennara, hvort sá kannist við það. Hins vegar geta verið tengsl á milli eyrnabólgu og kvefs, sem börn geta fengið hvar og hvenær sem er. Aðalatriðið er að gæta þess að litlu börnunum verði ekki kalt í sundinu en einmitt þess vegna er ungbarnasund haldið í innisundlaugum, sem hafa hæfilegt hitastig á vatninu fyrir  börnin og þess gætt að hafa viðeigandi hitastig þar sem búningsaðstaðan er. Það mætti einnig hugsa um sundhettur fyrir börnin til að minnka líkur á hitatapi hjá þeim í gegnum höfuðið.

Vona að þetta svari fyrirspurninni og gangi ykkur vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
4. nóvember 2004.