Ungbörn og salt

29.10.2004

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Hvers vegna á að varast að gefa ungbörnum saltaðan mat og hversu lengi á að bíða með að nota krydd í fæðuna?

................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er talið vera of mikið álag á nýru ungabarna að gefa þeim saltaðan mat. Það er ekki ráðlagt innan ungbarnaverndar heilsugæslunnar að krydda sérstaklega mat fyrir ungbörn því þau fá saltið annars staðar frá eins og t.d. úr smjöri þegar þau eru farin að fá það. Mælt er með að þau venjist heimilismat (forðast mikið kryddaðan mat) smám saman eftir að þau eru farin að borða fasta fæðu og eru flest farin að borða úr öllum fæðuflokkum upp úr eins árs aldri. Það er ekki miðað við ákveðinn aldur varðandi kryddun, heldur forðast mikið kryddaðan mat en leyfa barni að venjast hinum ýmsu brögðum eftir því sem það eldist. Það þarf að drekka vel t.d. vatn með söltum mat til að nýrun nái að útskilja með þvagi það umfram salt, sem við höfum ekki þörf fyrir. Sé það ekki gert, getur það haft áhrif á hækkun blóðþrýstings og bjúgmyndun í líkamanum.
Vona, að þetta svari fyrirspurninni en þér er líka óhætt að leita til þíns hjúkrunarfræðings í ungbarnaverndinni til  að fá nánari upplýsingar um mataræði ungbarna. Allir foreldrar eiga einnig að fá afhentan bækling í ungbarnaverndinni um mataræði ungbarna með leiðbeinandi og vonandi gagnlegum upplýsingum þar að lútandi.

Gangi ykkur vel!

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
29. október 2004.