Spurt og svarað

29. febrúar 2004

Utanlegsfóstur

Ég er með nokkrar spurningar varðandi utanlegsfóstur.
a) Hvað veldur utanlegsfóstri og hvar heldur það sig?
b) Hversu algengt er utanlegsfóstur?
c) Eru auknar líkur á utanlegsfóstri ef viðkomandi hefur fengið slíkt áður?
d) Hvernig lýsir utanlegs þungun sér og hvað getur í versta falli komið fyrir konuna?

Ps. Mjög fín heimasíða!

.........................................................................................................................................................


Sæl vertu, takk fyrir fyrirspurnina og hrósið!

a) Algengasta ástæða utanlegsfósturs er sú að einhver farartálmi er á leið hins frjóvgaða eggs niður eggjaleiðarana í legið.  Þessi farartálmi er oftast ör sem hefur orðið til eftir bólgur vegna sýkingar í eggjaleiðurunum.  Algengasti orsakavaldur slíks í dag er kynsjúkdómurinn Klamidía.  Langalgengast er að fóstrið taki sér bólfestu í eggjaleiðurunum eða í meira en 95% tilfella en örsjaldan tekur það sér bólfestu á sjálfum eggjastokknum og enn sjaldnar úti í kviðarholinu eða í leghálsinum.
b) Talið er að algengið sé á bilinu 0,5-2% þungana.
c) Já, líkurnar eru taldar vera í kringum 12% hjá konu sem hefur fengið utanlegsfóstur áður.
d) Oft er um einhverja blæðingu að ræða frá leggöngum, oftast frábrugðin venjulegum blæðingum, annaðhvort minni eða meiri.  Sárir kviðverkir koma oft snögglega og liggja meira öðrum megin í kviðnum, einnig getur verið verkur upp í öxl sem orsakast af blæðingu inn í kvið sem ertir lífhimnuna.  Ef mikil blæðing verður (oftast inn í kvðarholið þegar utanlegsfóstrið ,,sprengir” eggjaleiðarann) geta einkennin verið svimi, yfirlið, magnleysi og/eða hraður og veikur púls.  Í versta falli getur þessi blæðing stofnað lífi konunnar í hættu.

Vona að þetta sé fullnægjandi svar.  Bestu kveðjur.

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 27.02.2004.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.