Útisvefn

27.08.2005

Komið þið sæl!

Ég á eina 2 mánaða og var að velta því fyrir mér hversu gömul þau þurfa að vera þegar hægt er að láta þau sofa úti í vagni.

.............................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að senda okkur fyrirspurn!

Það hafa ekki verið gerðar neinar vísindalegar rannsóknir um aldur barna og útisvefn. Í grófum dráttum er venjulega miðað við þriggja vikna aldur þeirra á sumrin og fjögurra vikna aldur á veturna eða þyngd barnanna, en þá er miðað við þrjú kíló á sumrin og fjögur kíló á veturna. Svo metur móðurhjarta þitt og skynsemi þín þetta með veðurfarið og klæðnaðinn á barninu. Síðan þarf að hugsa um öryggi barnsins í vagninum þ.e. hafa það beislað frá fyrsta degi, hafa örugga bremsu á vagninum og ekki láta hann standa í sól, þegar barnið sefur í honum, svo ekki verði of heitt inni í vagninum þannig að barnið fari að svitna.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. ágúst 2005.