Útisvefni í frosti

24.11.2006

Hæ!

Ég hef verið að taka eftir umræðu á Barnalandi þar sem konur segjast láta börnin sín út að sofa í allt að 10 stiga frosti. Er gott fyrir börn að anda að sér svona miklum kulda?


Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Varðandi útisvefn barna ráðleggur fagfólk á Miðstöð heilsuverndar barna ekki útisvefn ungbarna í frosti. Rökin fyrir því eru, að það ferli að halda hita á líkamanum, krefst mikillar orku/bruna af barninu með því að hita og hreinsa loftið, sem það andar að sér, áður en það kemst niður í lungu.
Einnig hægir lágt hitastig í umhverfi okkar á önduninni. Þegar frost er utandyra eykur vindstigið frostgildið í réttu hlutfalli við styrkinn þannig, að lítið frost í miklu roki, lækkar hitastigið enn frekar.

Vonandi svarar þetta fyrirspurninni.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. nóvember 2006.