Vaknar oft á nóttunni

14.10.2005

Sæl!

Ég er með einn 3 og hálfs mánaða sem er einungis á brjóstamjólk. Fyrst eftir að hann fæddist svaf hann ágætlega á nóttunni, eða vaknaði kannski 3 sinnum á nóttu. Núna síðast liðnar þrjár vikurnar hefur hann tekið upp á því að vakna nær stanslaust alla nóttina sem veldur því að ekkert okkar sefur. Hann sefur í mesta lagi 2 tíma í senn. Hann grætur smáræðis þegar hann vaknar en samt engin læti í honum bara smá væl og hættir oftast þegar hann kemur á brjóstið. Við reyndum að gefa honum þurrmjólk eitthvert kvöldið til að athuga hvort hann væri svangur en honum fannst hún alveg hræðileg og kyngdi ekki einum einasta sopa.Hann hefur sofið einungis í 2-3,5 tíma í heildina yfir daginn frá fæðingu, þannig að hann er nú ekki að sofa mikið þá heldur. Er frekar áhyggjufull um að hann sofi ekki nóg litla skinnið og hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að hjálpa honum. Við værum mjög þakklát fyrir ráðleggingar.

Kveðja, Singing.

...................................................................

Sæl og blessuð Singing.

Eins og komið hefur fram áður á þessari síðu er þessi aldur algengur til umtalsverðra breytinga á háttum barna. Þar við bætist að þau fá (eins og áður) vaxtarspretti á nokkurra vikna fresti en þau bregðast öðruvísi við þeim. Það er algengt að þau grípi til þess ráðs ef þeim gengur illa að fá svarað þörfum sínum yfir daginn að vakna mjög ört upp á næturnar til að drekka. Þetta gengur yfir. Það er hægt að láta það ganga fljótar yfir með því að fjölga gjöfunum yfir daginn og þá sérstaklega rétt fyrir nóttina. Það getur t.d. verið sniðugt að nota skiptigjöf á kvöldin tímabundið (skipta oft um brjóst í gjöfinni). Ég treysti mér ekki til að svara varðandi heildarsvefntíma en bendi þér á að spyrja um það í ungbarnaverndinni. Vona að þetta hjálpi eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. október 2005.