Spurt og svarað

25. september 2011

Vandamál að verða ófrísk

Hæ!

Ég er 37 ára og maðurinn minn er 28 ára. Við erum búin að vera saman í 10 ár en ég á einn
12 ára strák fyrir. Ég hef alla tíð haft óreglulegan tíðahring, 32-40 dagar að meðaltali. Við fórum að hugsa um barn saman árið 2006 og ég lét fjarlægja lykkjuna af þeim ástæðum. Ég varð ófrísk sumarið 2007 en lenti reyndar í því að eggjaleiðarinn vinstra megin sprakk og ég lenti á spítala. Eftir þá aðgerð hef ég orðiðn ólétt 3 sinnum en alltaf misst á 2-4 viku. Okkur var reyndar tjáð að ég hefði enga eggjaleiðara lengur og okkur var gefið samband við tæknifrjóvgunarstofu í Reykjavík og höfum farið 8 sinnum en án árangurs. Í legómskoðun kom í ljós að ég hef haft einn leiðara öll þessi ár, þannig að okkur var sagt rangt til árið 2008 um að þeir væru báðir farnir. Athugun á sveppum í leginu og margar blóðprufur hafa komið vel út að sögn lækna. Núna er ég á 45. degi tíðarhrings og tók prufu í morgun sem var neikvæð. Hvað getum við gert? Tæknin hjálpar ekki og ekkert gengur ekkert með náttúrulegu aðferðinni. Við höfum farið í einar 25-30 blóðprufur til að kanna ýmsa þætti. Hann er í lagi samkvæmt prufum og ég á að vera með nauðsynleg líffæri og hormón í lagi líka. Er eitthvað meira sem við getum látið athuga? Við erum ráðalaus og ég er hrædd um að hann verði þreyttur á barnleysinu ef svona heldur áfram. Vona að þið hafið einhverjar uppástungur þar sem við fáum lítil svör frá læknum almennt.

Kveðja, Ein að verða vitlaus eða jafnvel orðin.


Sæl og blessuð!

Við getum því miður ekki gefið þér skýringar eða mörg ráð. Ég geri ráð fyrir að þið hafið verið í meðferð hjá Art Medica en þar eru sennilega okkar færustu sérfræðingar á þessu sviði. Stundum er hægt að finna orsakir ófrjósemi en ekki alltaf. Ég vil ráðleggja ykkur að panta tíma hjá Art Medica og fá þær skýringar sem hægt er að fá og fá upplýsingar um hvaða meðferðir standi ykkur til boða. Síðan getið þið vegið og metið hvað sé best að gera í stöðunni. Margir leita líka óhefðbundinna leiða s.s. til grasalækna eða nálastungusérfræðinga.

Það er vissulega alltaf til bóta að borða holla fæðu, vera í kjörþyngd og hreyfa sig reglulega.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. september 2011.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.