Spurt og svarað

10. júlí 2006

Vanlíðan og erfitt ungbarn

Sælar!

Ég er með einn 11 vikna strák sem er fæddur léttburi eða um 10 merkur sem fæddist á 37 viku vegna alvarlegrar meðgöngueitrunnar. Málið er það að alveg frá því hann var u.þ.b.3 vikna þá sefur hann ekki á daginn, hann vakir stundum alveg 10-12 tíma og vill bara vera í fanginu á manni þetta er svo komið að ég get ekki farið á klósett eða gert handtak á daginn og hvað þá farið eitthvað út, ég reyndi að fara í göngutúr og ég gafstu upp eftir 10 mínútur og snéri við. Hann tryllist ef ég set hann í vagninn, því ég ætlaði að venja hann á að sofa úti. Ég er bæði með magapoka og svona til að vefja hann utan á mig en hann gargar ef ég set hann í þetta. En hann er ekkert óvær þegar hann er vakandi hann bara vill vera í fangi á einhverjum annars verður hann brjálaður. Hann tekur ekki snuð auðveldlega og spýtir því út úr sér við fyrsta tækifæri. Hann er einnig á þurrmjólk með brjóstagjöf sem hefur gengið mjög illa..
Ég er orðin aðframkomin af þreytu og leiða á að komast aldrei neitt og hitta engan á daginn nema að barnið gjörsamlega tryllist og því fer ég ekki neitt Ég er 100% viss um að ég er með fæðingarþunglyndi, ég fékk 13 stig í spurningunum sem ljósmóðirin sem kom heim með og bað mig að svara en það eina sem að hún sagði var að það væri ekki nógu gott og svo hefur hún ekki minnst einu orði á þetta þegar ég kem með tryllt barn í vigtun. Ég er að berjast við að halda brjóstagjöfinni áfram, fór til brjóstaráðgjafa og er nokkrum sinnum búin að leigja mér mjaltavél, taka mjólkuraukandi og drekka heitt og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég fór meira að segja á barnlæknavaktina á Domus Medica fyrir nokkrum dögum því ég var að tapa mér og hélt að það væri bara eitthvað að barninu.  Læknirinn nánast hló að mér og sagði þetta hljóta að taka enda. Ég er búin að prófa höfuðbeina og spjaldhryggs meðferð og ég veit ekki hvað ég get meira reynt. Mér finnst ég vera algjörlega óhæf móðir og græt yfirleitt á hverjum degi af því ég veit ekki hvað ég er að gera vitlaust.

Svo að mínar spurningar eru eftirfarandi:

  • Hvað get ég gert svo að hann taki snuðið og hætti að nota mig fyrir snuð, er búin að heyra með að setja sykurvatn og hunang eða sultu á snuðið en las hérna á síðunni að hunang væri stórhættulegt?
  • Er það alveg „dauðadómur“ að hætta með hann á brjósti alveg og hann fái bara þurrmjólk? (Ljósmóðirin sem ég er með pressar svo mikið á mig að halda áfram með hann á brjósti)
  • Hvað get ég gert til að fá barnið mitt til þess að sofa, áður en ég tapa endanlega minni geðheilsu?
  • Hvert á ég að leita til að fá aðstoð vegna þunglyndis, ég er búin að hringja í fullt af geðlæknum en enginn virðist taka nýja sjúklinga og ég vil ekki fara á bráðamóttöku geðdeildar þar sem að mamma mín er að vinna þar og ég dauðskammast mín fyrir þetta enda veit enginn að mér líður svona illa nema maðurinn minn og hann veit ekkert hvað hann á að gera
  • Hann er búin að vera á sojaþurrmjólk síðan á föstudaginn og það er ekkert að breytast hjá honum, miniform droparnir segja ekki neitt. Hann vill bara sofna í fanginu og sofa þar.
  • Ætti ég að tala við svefnráðgjafa með svona ungt barn?

Ég vona að ég fái einhver svör frá ykkur því ég er alveg er ráðalaus. Takk fyrir

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar - en afsakaðu hvað svarið berst þér seint.

Í sambandi við andlega vanlíðan þá er hægt að hringja bráðaþjónustu geðdeildar í síma 543-4050 og/eða beint í síma hjá hjúkrunarfræðing sem er 896-1539.

Það eru einnig til sjálfstætt starfandi geðhjúkrunarfræðingar sem eru mjög góðir t.d. Bergþóra Reynisdóttir – geðhjúkrunarfræðingur  www.liljan.is símanúmer 564-6669 og 863-6669.

Margar konur ræða líka við sinn heimilislækni.

Ég held að það geti verið gott að ræða við hjúkrunarfræðinga á Göngudeild barna með svefnvandamál um svefn litla barnsins í síma 543-3700. Það er nauðsynlegt að fá hjálp þegar hlutirnir ganga svona því það er mjög erfitt að ætla að leysa þetta án hjálpar.

Með brjóstagjöfina - þá verður þú að ákveða fyrir þig og þitt barn - hvað þú treystir þér til að gera.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. júlí 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.