Spurt og svarað

04. maí 2008

Vill ekki borða

Góðan dag.

Ég á strák sem er sex mánaða og mjög stór eftir aldri er í raun efst í kúrfunni í hæð en fyrir neðan meðaltal í þyngd og stækkar mjög hratt. Í fimm mánaða skoðuninni var mér sagt að fara að gefa honum að borða. Það gekk vel fyrst en svo fór hann algjörlega að neita því að borða sama hvað ég hef boðið honum. Hann vill ekkert annað en brjóstið og fær hann það mjög ört en það virðist ekki duga honum þar sem ég sé að hann hefur grennst. Hef ekki hugmynd hvað ég á að gera, hann er farin að sofa illa þar sem hann er alltaf að drekka á nóttunni vegna þess að hann er hreinlega svangur. Getið þið gefið mér eitthvað ráð?

Kveðja, áhyggjufull móðir.


Sælar!

Það kemur fyrir að börn eru lengi að læra að borða. Hjá sumum börnum getur það tekið 2 til 3 mánuði. Það er allt í lagi að bíða aðeins með að gefa börnunum að borða - sum eru að byrja við 7 mánaða aldur. En þau borða flest þegar þau eru tilbúin til þess.  Það er gott að fá aukavigtun fyrir hann þá sérðu hvar hann stendur. Ef hann hefur verið að léttast þá má bjóða honum mat þegar þið eruð að borða, en magamál lítilla barna er svo lítið að flest börn borða lítið í fyrstu. Þú getur hugsað þér að magamál hans sé eins og hnefinn hans.

Í flestum tilfellum höfum við ekki áhyggjur þó börnin vilji ekki borða. Það er líka gott hjá þér að hafa samband við hjúkrunarfræðinginn/ljósmóðurina þína í ungbarnaverndinni - hún getur metið þetta með þér.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.