Spurt og svarað

21. september 2006

Vill ekki borða, er rúmlega 6 mánaða

Sonur minn er rétt rúmlega 6 mánaða gamall. Hann hefur hingað til eingöngu nærst á brjóstamjólk auk AD-dropa en eins og leiðbeiningar segja til um var honum boðin föst fæða í fyrsta skipti daginn sem hann varð 6 mánaða. Við byrjuðum með maísgraut, blandaðan með Stoðmjólk en hann kokaði bara þar til hann ældi. Því næst var prófaður grautur úr höfrum með sama árangri. Undanfarna daga höfum við verið að prófa okkur áfram með krukkumat, mjölgrauta með ávöxtum í, við höfum stappað banana og kartöflur en ekkert gengur. Allt eru þetta ósykraðar vörur frá viðurkenndum framleiðendum. Þrátt fyrir að við höfum fundir fæðutegundir sem honum virðist líka bragðið af þá harðlokar hann munninum og neitar að taka við skeiðinni. Auðvitað hefðum við helst viljað byrja með eina fæðutegund og bæta svo við smátt og smátt en þetta hefur farið svona hjá okkur í leit að einhverju sem barnið kokar ekki svona mikið á að það endi með uppköstum.
Ég vil líka taka það fram að þessir fyrstu skammtar hafa bara verið 1-2 teskeiðar og upp í u.þ.b. matskeið síðustu daga. Drengurinn harðlokar munninum og beygir höfuðið frá okkur líkt og fugl sem stingur höfðinu undir væng. Hann virðist vera orðinn ansi leiður á tilraunum okkar við að skemmta honum í von til þess að hann opni munninn og þessir „matartímar“ okkar eru því bæði honum og okkur lítið tilhlökkunarefni. Mig langar því til að spyrja: Getur verið að 6 mánaða barn sé ekki tilbúið að byrja að borða? Er hægt að gefa honum lengri tíma bara á brjóstinu og uppfylla járnþörf hans með öðrum hætti? Drengurinn er fæddur rúmar 14 merkur eftir 40 vikna meðgöngu. Hann hefur alla tíð haldið sinni vaxtarkúrfu og er í dag algjört meðalbarn í bæði lengd og þyngd. Hann hefur verið einstaklega heilsuhraustur, ekki fengið svo mikið sem hor í nös, er mjög brosmildur og duglegur í öllum hreyfingum (velti sér 3ja mánaða, sat einn 5¼ mánaða, mjakar sér um öll gólf 6 mánaða). Brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel, drengurinn hefur alltaf fengið að drekka þegar hann vill og aldrei verið litið á klukku í því samhengi. Hann er í ró í u.þ.b. 11 klukkustundir samfleytt á nóttunni (kl.u.þ.b. 23-10) en drekkur reyndar tiltölulega oft á þeim tíma (á 2-4 klst fresti). Það hefur ekki truflað
okkur neitt, við mæðginin bara rétt rumskum þar sem hann sefur oftast uppi í rúmi hjá okkur foreldrum sínum. Á daginn tekur hann oftast 2 lúra; 3-4 klst frá hádegi og u.þ.b. ½-1 klst lúr um kvöldmatarleytið.

Á maður að fara að stjórna meira tímum á brjóstagjöf hjá svona gömlu barni eða má hann áfram fá brjóstið þegar hann vill? Ég hef passað upp á að gefa honum ekki brjóstið 2-3 klst fyrir matmálstíma sem við höfum haft um kl. 11 á morgnana og svo aftur um kl. 21 á kvöldin.

Með kærri þökk fyrir fræðandi og skemmtilegan vef.


Sæl og blessuð!

Það getur vel verið að hann sé ekki tilbúinn til þess að borða mat - það eru alltaf einhver börn sem byrja seinna að borða en 6 mánaða og allt í lagi með það - brjóstamjólkin er næringarrík og innihaldið svarar oftast þörfum barnsins. Oftast byrja börnin að borða þegar þau eru tilbúin til þess. Ég myndi gefa honum lengri tíma á brjósti og sjá til hvort þetta komi ekki hjá honum. Börn hafa mismunandi þarfir og þetta hefur gengið mjög vel hingað til með hann svo ég á ekki von á öðru en að hann fari að borða þegar hann stækkar meira og þroskast. Ekki hafa áhyggjur af þessu. Ég held að hann byrji að borða þegar hann verður tilbúinn til þess, þú getur boðið honum mat af og til en ekki gera mikið mál úr þessu.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.