Spurt og svarað

06. september 2006

Vill ekki drekka mjólk

Góðan daginn og takk fyrir góðan upplýsingavef!

Ég á prins sem er rúmlega 6 mánaða gamall og ég er að reyna að venja hann af brjóstinu. Hann er farinn að fá graut og ýmislegt fleira að borða en hann vill bara alls ekki drekka mjólk, hvorki, þurrmjólk, stoðmjólk né nýmjólk. Það er alveg sama hvort ég set hana í pela, stútkönnu eða venjulegt glas! Hann drekkur samt vatn og safa úr þessum ílátum. Ég gef honum brjóst þegar hann vaknar á nóttunni (1-2 sinnum) og svo á kvöldin og morgnana. Á daginn fær hann að borða og vatn og svo reynum við alltaf að gefa honum mjólk en það er ekki að ganga upp! Eigið þið eitthvað ráð handa mér?

Með fyrirfram þökk og von um skjót svör, mamma.Sæl og blessuð!

Það er alltaf hluti barna sem vill ekki aðra mjólk en móðurmjólkina. Það er lítið sem hægt er að gera nema halda áfram að bjóða þeim mjólk. Það hefur oftast gengið á endanum með stoðmjólkina eða nýmjólkina. Þetta getur verið vegna þess að það er sætabragð af móðurmjólkinni „gott bragð“ - og börnin eru svo næm og ákveðin, að þau vita hvað þau vilja. Þetta lagast oftast eftir því sem þau stækka.  Hann fær alla vega núna móðurmjólk með svo þetta er allt í lagi næringarlega séð í bili.

Með bestu kveðju, og gangi ykkur vel með litla prinsinn.

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.