Vill ekki mjólk

28.12.2006

Sælar og takk fyrir vandaða heimasíðu.

Dóttir mín er 7 mánaða og drekkur nú aðeins hjá mér kvölds og morgna.  Hún vill ekki pela og ég næ aðeins að gefa henni örlitla mjólk á dag úr venjulegu glasi. Hún er sólgin í vatn og vill nær eingöngu drekka það. Ég hef áhyggjur af því að hún fái ekki nægilegt kalk og var að velta fyrir mér hvað ég gæti gefið henni í staðin fyrir mjólk. Í bæklingnum um næringu ungbarna er talað um að bíða í 1 ár með sýrðar mjólkurvörur þannig ég er pínu ráðvillt.

Með fyrirfram þökk,
Lára


Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er rétt að stelpan þarf að fá meiri mjólk heldur en hún gerir.  Eitt ráðið er að hætta að gefa henni vatn og bjóða bara upp á mjólk að drekka.  Sennilega endar með því að hún samþykkir mjólkina ef hún fær ekki vatnið.  Þetta getur tekið tvo, þrjá daga og hún kannski drekkur sama og ekkert þessa daga en ekki gefast upp, ef hún er dugleg að borða þá er þetta allt í lagi.  Svo getur þú kannski komið mjólk ofan í hana með því að setja hana út á grauta eða hræra henni saman við matinn.  Eins og þú segir þá er ekki ráðlagt að gefa sýrðar mjólkurvörur fyrsta árið og hún er frekar ung til að fara að borða osta í einhverju magni þannig að þá stendur mjólkin eftir.  Sum börn fúlsa við Stoðmjólk en drekka Nýmjólk með bestu lyst þannig að þú gætir reynt að skipta þarna á milli.

Gangi þér vel.

Svarið við hinni spurningunni þinni er í vinnslu.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
28.12.2006.