Spurt og svarað

08. september 2005

Vöggudauði

Komið þið sælar!

Mig langar að fá upplýsingar um vöggudauða. Var að fá að heyra að léttburar og fyrirburar væru í meiri áhættu fyrir vöggudauða og núna hugsa ég ekki um annað en að vekja barnið mitt sem fæddist léttburi.  Er þetta rétt? Hvað get ég gert til þess að koma í veg fyrir að barnið mitt lendi í þessu?  Hef jafnvel velt fyrir mér að kaupa svona rafeindartæki sem mælir hjartslátt hjá henni á næturnar. Þetta er fyrsta barn. Kannski er ég að fara offörum en er virkilega órótt.

Kveðja.

..............................................................


Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Já, ég skil áhyggjur þínar varðandi vöggudauða, sem ég held raunar að flestar mæður leiði hugann að skömmu eftir barnsburð. Vöggudauði hefur verið skilgreindur sem skyndilegur og óvæntur dauði heilbrigðs ungbarns, sem engin
skýring finnst á og kemur fyrir börn á fyrsta ári, oftast við 2ja-4rra mánaða aldur. Tíðni vöggudauða á Íslandi er með því lægsta sem gerist í heiminum í dag. það er mikið búið að rannsaka og er enn verið að rannsaka orsakir vöggudauða en ekki hefur tekist að finna  neina ákveðna orsök en talið er, að hún geti verið margþætt. Ákveðnir þættir hafa þó komið fram, sem virðast tengjast aukinni áhættu á vöggudauða. Mætti þar nefna m.a. svefnstellingu barnsins, reykingar móður á meðgöngu og óbeinar reykingar barns, eitulyfjaneyslu móður, aldur móður undir tvítugu, veikindi barns, ofdúðun barns þannig að því verði of heitt,  það að vera strákur, vera fyrirburi eða léttburi. Því miður er það einn af áhættuþáttunum að vera léttburi eins og þú nefnir réttilega en það er talað um að oftast fari fleiri en einn áhættuþáttur saman til að auka líkurnar og ætti þér því að vera óhætt að hugsa jákvætt til lífsins ykkar saman og njóta þess að vera til.

Það, sem þú getur gert til að koma í veg fyrir að barnið lendi í þessu, er númer eitt að halda ró þinni og halda áfram að hugsa jafn vel um barnið þitt og þú hefur gert hingað til. Og fyrir alla muni leyfðu barninu að sofa í ró og næði, þegar hún sefur. Hér á síðunni, í kassanum um slysavarnir, eru góðar og nytsamlegar leiðbeiningar til foreldra um svefnstellingar og heitir Ungbarn lagt til svefns. Kíktu endilega á það. Það hafa verið gerðar rannsóknir á notkun svona tækja eins og þú talar um í fyrirspurninni fyrir hjartslátt barnsins en hefur ekki tekist að sanna ágæti þeirra til að koma í veg fyrir vöggudauða.

Heilbrigðisráðuneytið í Bretlandi gaf út tilmæli til foreldra, árið 1991,  í forvarnarskyni um vöggudauða, sem hljóðuðu eitthvað á þessa leið:

  1. Ekki leggja ungbarns á magann til svefns.
  2. Ekki hafa sígarettureyk í umhverfi barnsins (engar óbeinar reykingar
    fyrir börn).
  3. Ekki láta börnunum verða of heitt (ekki of mikill klæðnaður eða of þykkar
    sængur, né of heitt í herberginu).
  4. Farið fljótt með barnið til læknis ef það veikist.

Ég er næstum sannfærð um að jafn umhyggjusöm móðir og þú virðist ver, hefur
þegar farið eftir öllum þessum tilmælum, áður en þú last þau hér. Vona, að þetta svar lægi eitthvað óróleika þinn en það er sjálfsagt fyrir þig að ræða um þessar vangaveltur þínar við hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni. Gangi þér vel!

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
08.09.2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.