Spurt og svarað

28. október 2009

Þrif á bleiubörnum

Góðan daginn.

Mig langar að fá ykkar álit varðandi það að hreinsa ekki bossann á bleiubörnum? Barnabarnið mitt er með mikil útbrot á bleyjusvæðinu en mamma hennar þrífur eiginlega aldrei svæðið nema hún kúki. Telur bara nóg að viðra bossan vel. Hún segir að hún sé með sveppasýkingu og vill ekki nota blautklútana sem ég skil vel, betra er að nota vatn því barninu svíður auðvitað, en hún þvær henni bara ekkert.  Er þetta ekki mjög rangt? Mamma hennar hefur alltaf átt erfitt með að gera eitthvað sem dótturinni líkar ekki, og því er það orðið þannig að hún rétt svo getur tekið bleyjuna af barninu á hlaupum og þannig er það líka þegar hún klæðir hana í, Því hún getur ómögulega gert eitthvað sem pirrar barnið, en ég tel mig vita að það þarf að venja börnin á að þola það að þau séu klædd og skipt á þeim. Hún er orðin 1,5 árs, svona er þetta líka með matinn, hún fær að borða allt á hlaupum um allt og þolir illa við, við matarborð. Tengdadóttir mín er þannig að hún spyr aldrei ráða, mér dettur í hug hvort að breytta kerfið við fæðingu, þar sem mæður fara, liggur við, beint heim, sé kannski svolítið gallað með þetta að gera, því þá fá þessar nýju mæður ekki nógu góðar leiðbeiningar. Þetta er nefnilega eitthvað sem engum dettur í hug að ræða. Jæja vona að þið getið svarað þessu bréfi, með fyrirfram þökk.

Áhyggjufull amma.


Komdu sæl

Vissulega þarf að þrífa bossann á bleiubörnum reglulega en það er þó ekki nauðsynlegt í hvert sinn ef bara er um þvag að ræða.  Það eru efni í þvagi sem geta brennt viðkvæma rassa alveg eins og kúkur.  Gott getur verið að nota mjúkar grisjur og vatn.  Ef verið er að nota krem við sveppasýkingu þarf að þvo vel leifar af kreminu frá síðasta áburði áður en nýtt er sett á.  Þetta á reyndar við um öll krem.  Ég vil samt taka fram að það er ekkert sem heitir rangt erða rétt í þessu og flestar mæður reyna jú að gera sitt besta fyrir börnin sín.

Það sem þú talar um með matinn og bleiuskipti eru uppeldisleg atriði og það eru jú foreldrarnir sem ráða uppeldi barna sinna hvað sem öðrum finnst um það.

Flestir, bæði fagfólk og foreldrar eru sammála um það að heimaþjónusta ljósmæðra fyrstu dagana eftir fæðingu sé ekki síður góð en sængurlega á sjúkrahúsi.  Farið er yfir alla þá þætti í umönnun ungabarna sem þarf, en þetta eru sömu atriðin og er farið yfir og kennt á sængurkvennadeildinni.  Þarna er sama ljósmóðirin sem annast foreldrana og barnið fyrstu dagana og foreldrar eru í sínu umhverfi og þar af leiðandi öruggari en annars.

Mér vitanlega hefur aldrei verið kennt um uppeldi barna í sængurlegu en boðið er uppá námskeið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um uppeldi barna.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. október 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.