Spurt og svarað

25. nóvember 2006

Þriggja mánaða brjóstabarn sem þyngist ekki nóg

Sælar!

Ég fór með piltinn minn í ungbarnaverndina og þeim finnst hann ekki þyngjast nóg. Á tæpum fjórum vikum hefur hann einungis þyngst um 310 grömm. (Hann vegur nú 5080 gr., er 60,5 cm. og höfuðmálið er 39 cm.) Að öðru leyti lítur hann vel út, drekkur heiminn í sig með augunum, brosir, er aðeins byrjaður að nota hendurnar, er mjög stæltur og hreyfir sig töluvert. Þær vilja fá hann aftur í vigtun í næstu viku og meta þá hvort hann þurfi að fá ábót. Þangað til er það mitt að meta hvort ég vilji gefa honum ábót ef mér finnst þess þurfa. Við höfum aðeins prófað það og þá drekkur hann ábótina úr lyfjaglasi og er ekki sáttur. Það er kannski rétt að taka fram að það hefur verið heilmikið um að vera hjá okkur, flutningar, ferðalög og að auki hefur mín andlega heilsa ekki verið upp á marga fiska, er sem sagt með fæðingarþunglyndi og hefur gengið illa að slappa af og njóta þess að vera nýbökuð móðir. Mér finnst ég ekki vera tilbúin til að hætta með hann á brjósti strax, en óttast að þróunin verði í þá átt fari ég að gefa honum ábót (þó ekki úr pela). Eins finnst mér stundum erfitt að gera mér grein fyrir því hvort hann er svangur eða þreyttur. Því þegar ég legg hann á brjóst á hann það til að spenna sig upp, sleppa vörtunni og kvarta, en svo þegar ég held á honum þá leitar hann á fullu og kvartar. Óöryggi mitt kemur líka fram í því að ég geri mér ekki alltaf grein fyrir því hvort hann er búinn að tæma brjóstið og þar með fá feitu mjólkina. Og eins finnst mér oft lítið í mér þegar kemur að gjöf. Spurningin er kannski ekki alveg skýr, en getur brjóst og ábót farið vel saman eða á ég að búa mig undir að þurfa hugsanlega að hætta með hann á brjósti? Hafið þið einhver ráð handa mér út frá þessum upplýsingum sem ég hef sett hér niður? Eða er um einhvern misskilning að ræða hjá mér sem þið kæru konur getið leiðrétt? Að lokum takk fyrir góðan vef sem ég hef mikið nýtt mér.

Kveðja, „ein með vangaveltur“.

 


 

Sæl og blessuð „ein með vangaveltur“.

Það er von að þú sért óörugg. Það er oft erfitt að átta sig á þessu. Þyngdaraukning barnsins er ekki svo slæm. Hann hefur þyngst um 310 gr en ætti að lágmarki að hafa þyngst um 340 gr. Það munar nú ekki miklu. Hann hefði getað náð þessu eftir 1 gjöf. Það er ekki næg ástæða til ábótargjafar. Það er hins vegar ástæða fyrir þig að reyna að bæta gjafamynstrið ykkar. Þú gleymir að segja hversu oft barnið drekkur á sólarhring. Það er alltaf lykilatriði. Hann gæti verið að drekka of sjaldan. Skjóttu inn 2 aukagjöfum og sjáðu hvort ástandið breytist ekki. Það hefur oft áhrif á brjóstagjöf ef ytri aðstæður eru ekki hagstæðar þannig að þú getur líka lagað ástandið með því að bæta þær eins og þú getur. Ég veit að fæðingarþunglyndi er erfitt viðureignar en þú þarft meðferð við því og nú til dags er í lagi að taka sín þunglyndislyf og hafa barnið á brjósti þannig að það ætti að vera hægt að bæta úr því. Þegar þú gerir þér ekki grein fyrir hvort hann er svangur eða þreyttur skaltu leggja hann á brjóst. Það er ein gullin regla í brjóstagjöf sem hljómar svona „Ef þú ert í vafa, bjóddu þá brjóstið“. Þegar hann er að sleppa vörtunni og kvarta geturðu prófað að breyta um stellingu eða handtök. Það gerir ekkert til þótt þú gerir þér ekki grein fyrir hvort hann er búin að tæma brjóstið. Þú átt ekki að geta gert þér grein fyrir því, því það er ekki hægt. Hættu alveg að hugsa um það. Einbeittu þér bara að því að njóta samverunnar við hann. Það er líka allt í lagi þótt þér finnist vera lítið í þér fyrir gjöf. Þú átt að vera hætt að finna fyrir mjólkinni í brjóstunum. Ef þau eru alltaf mjúk og fín þá er það gott mál.

Svörin við spurningunum í lokin:

  • Nei, brjóst og ábót fara oftast ekki vel saman.
  • Nei, þú átt ekki að búa þig undir að hætta með barnið á brjósti.

Vonandi ertu búin að fá einhver góð ráð. Misskilningurinn er ekki hjá þér.

Vona að þér gangi allt í haginn,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.