Spurt og svarað

03. maí 2005

Þrjár gjafir á sólarhing og drekkur lítið annað

Sæl ljósmóðir!

Ég er með svaka áhyggjur af dóttur minni. Hún er 8½ mánaða og ég er að venja hana af brjósti. Hún fær brjóst 3 sinnum á dag; kl. 7, 11 og 20:30, en síðan drekkur hún bara eiginlega ekkert meira yfir daginn.  Ég er búin að reyna allar tegundir af mjólkurafurðum sem hún má drekka og hún kúgast bara og hún vill ekki vatn.  Hún var orðin mjög sátt við perusafa úr stútkönnu en síðustu daga hefur hún ullað á það líka (vil taka það fram að hún er ergileg vegna þess að hún er að taka pensilín við eyrnabólgu og er svo að fá tennur í þokkabót, veit ekki hvort það hefur einhver áhrif?).

Ég veit að þetta hlýtur að koma með tímanum en ég er aðallega að spá í því hvort þessar 3 gjafir sem hún er að fá hjá mér séu nóg (er alltaf að ota að henni könnunni og það kemur fyrir að hún fái sér einn sopa) eða þarf ég að hafa einhverjar áhyggjur.

Með fyrirfram þökk, mamma.

...............................................................


Sæl og blessuð mamma!

Þú þarft alls ekki að hafa svaka áhyggjur. Börn sem eru orðin svona gömul eru ansi glúrin að redda sér þeim vökva sem þau þurfa. Þú þarft náttúrlega að taka tillit til þess að barnið er veikt. Þá er lystin oft lítil og léleg. Ef veikindunum fylgir hiti þá eykst vökvaþörfin og oft í leiðinni þorstinn. Oft er farið að dekstra börn í veikindum til að drekka betur. Þeim er kannski boðið oftar brjóstið en verið hefur af því vitað er að þar er vökvi sem þau þiggja. Stundum er reynt að bjóða ís eða frostpinna því það er sætt, gott og kalt. Það er ekkert athugavert við það að dekstra börn þannig tímabundið til að hjálpa þeim í gegnum erfitt tímabil.

En að veikindum slepptum þá það er nokkuð algengt að á þessum aldri vilji börn sem verið hafa á brjósti ekki kúamjólk. Það er í fínu lagi. Þau þurfa ekkert á henni að halda. En annan vökva þurfa þau að fá. Mörg vilja vatn og flest eru hrifin af einhverskonar ávaxta eða grænmetissöfum. Það getur tekið svolítinn tíma að finna réttu blönduna og rétta hitastigið. Sum vilja drykkinn heitan en önnur vilja hann kaldan. Þau vilja gjarnan taka svona nýja drykki í mjög litlum skömmtum. Sopa og sopa, taka upp í sig og láta það svo leka út (sem þarf alls ekki að merkja að þau vilji það ekki). Þau taka gjarnan lítinn skammt af nýjum vökva í nokkur skipti áður en fullri sátt er náð. Svo eins og ég segi eru börn glúrin. Þegar þau eru í þeim fasanum að drekka lítið þá sækja þau frekar í vökvaríka fæðu t.d. ávexti. Þau geta líka drukkið talsvert þegar þau eru í baði o.s.frv. 

Ég held að þú þurfir fyrst og fremst að komast yfir þetta veikindaskeið og þá ferðu að sjá nýtt „vökvamynstur“.

Með von um að veikindin gangi sem fljótast yfir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og  brjóstagjafaráðgjafi,
3. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.