Þröngur endaþarmur

17.06.2006
Halló
Ég er með miklar áhyggjur af litlu stelpunni minni.  Það kom í ljós um daginn að hún er með of þröngan endaþarm, og kannski þurfi að svæfa hana.  Er ekki hættulegt að svæfa ungabörn?  Eru svona aðgerðir lífshættulegar fyrir barnið mitt?  Er þetta algengt hérna á Íslandi?
Með von um skjót svör.
 
..............................................
 
Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
 
Skiljanlega hefur þú áhyggjur.  Helst vildi maður aldrei þurfa að leita læknis með börnin sín.  Svæfingu fylgir alltaf einhver áhætta en sem betur fer er hún lítil.  Á hverju ári eru mörg pínulítil börn svæfð á Íslandi og sem betur fer gengur allt að óskum í langflestum tilfellum, reyndu að hafa það í huga þegar og ef stúlkan þín fer í aðgerð.  Nú veit ég ekki hversu mikið þetta er hjá henni eða hversu stór aðgerðin verður, því getur bara læknirinn hennar svarað en svona aðgerðir eru ekki lífshættulegar fyrir barnið ef hún er hraust að öðru leiti.  Ég held ekki að svona aðgerðir séu algengar en það er alltaf eitt og eitt barn sem fæðist með of þröngan eða lokaðan endaþarm.
 
Gangi ykkur vel
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
17.06.2006