Spurt og svarað

23. febrúar 2015

Þunglyndi og svæfing

Sæl, núna er strákurinn minn alveg að verða 16 mánaða gamall. Ég átti hann alveg lyfjalaust og eingöngu gasið við höndina. Ég rifnaði 3ju gráðu og þurfti svæfingu til að sauma (sem ég er þakklát fyrir þrátt fyrir afleiðingarnar af svæfingunni). Ég var bara rétt rúmlega sólahring inni á deildinni en hefði mátt vera 2. Ég fékk ofsakvíðakast fyrsta kvöldið heima, átti erfitt með að borða og var lystarlaus, ég byrjaði að borða aðeins 2 dögum eftir fæðingu og svæfingu því maðurinn minn bara skipaði mér að borða. Ég er viss um að kvíðinn og lystarleysið og allt þetta hafi haft áhrif hvert á annað. Ég hef fengið kvíða annað slagið og þegar ég hugsa til baka til fæðingarinnar, get ég samt alveg hugsað mér að eignast annað barn. Málið er að eftir þetta allt saman fór ég að velta fyrir mér, eftir að ég var greind með vanvirkan skjaldkirtil hvort að ég gæti verið með einkenni fæðingarþunglyndis (ekki lengur, en á þessu fyrsta ári eftir fæðingu barnsins) þar sem ég fékk kvíðaköst, mér fannst ég vera orkulaus, stundum engin löngun til að gera neitt, en svo kenni ég skjaldkirtlinum um því ég var með verulega vanvirkan í marga mánuði áður en ég var greind, ég var líka verulega lág í járni og d vítamíni eftir að ég hætti með strákinn á brjósti. Ég tek Levaxin við skjaldkirtlinum og ég er öll að koma til en það er samt ennþá verið að stemma skammtinn af. Getur verið að þessi einkenni geti verið frekar af skjaldkirtlinum eða getur verið að ég hafi verið að upplifa fæðingarþunglyndi? Svo er spurning hvort að það sé eðlilegt að geta auðveldlega hundsað grátinn í barninu eins og þegar hann er að fara að sofa á kvöldin. Ég er að kenna honum að sofna sjálfur í rúminu sínu og ég legg hann niður og fer út, kem svo aftur eftir x langan tíma og endurtek alveg þangað til hann hættir að gráta? Mér líður ekki vel að heyra hann gráta, en er eðlilegt að geta leitt það hjá sér? Pabbinn sem dæmi getur ekki notað þessa aðferð við að svæfa barnið og ég lendi svo alltaf í því að þurfa að byrja allt upp á nýtt þegar ég sé um að svæfa, hann lætur barnið sofna í fanginu á sér eða liggur hjá honum til að svæfa hann (sem ég er ekki hrifin af því ég þekki dæmi þess að það hafi komið sér illa fyrir foreldra mörgum árum seinna). Með von um einhver svör - forvitin móðir sem sér ekki sólina fyrir stráknum sínum.


Heil og sæl, hvað varðar fyrri spurningu þína þá getur það vel verið að þú hafir verið með fæðingaþunglyndi en hins vegar getur vanvirkur skjaldkirtill einnig gefið þessi einkenni. Stóra málið er að þú ert öll að koma til. Hvað varðar það að svæfa litla gaur þá eru alltaf skiptar skoðanir á því hvernig er best að gera það. Þessi aðferð sem þú notar gengur oft mjög vel en þið þurfið að vera alveg sammála um aðferð því eins og þú bendir sjálf á þá þarf að byrja aftur frá byrjun ef þið notið ekki sömu aðferð. Það er mælt með því að kenna börnum að sofna í rúminu sínu en ekki í fangi foreldra (þó að það geti verði voða notalegt). Mikilvægast er fyrir ykkur að vera samstíga í uppeldinu, hvaða leið sem þið ákveðið að fara. Gangi ykkur vel.  
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræingur
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.