Þurr hársvörður

19.01.2005

Góðan dag.

Dóttir mín er 8 vikna og fæddist með mjög mikið hár sem hún hefur alveg haldið.
Vandamálið er að hársvörðurinn hjá henni er alveg rosalega þurr og það er eins og hún sé með flösu.  Ég hef sett olíu í baðvatnið hennar en þá verður hárið sjálft svo rosalega feitt.  Hvað get ég gert?

....................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Mér dettur í hug að dóttir þín gæti verið með skán í hársverðinum fremur en eitthvað annað, en hjúkrunarfræðingurinn þinn í ungbarnaverndinni getur skorið úr um það næst þegar þú hittir hana. Þú getur skoðað fyrirspurn um Skán í hársverði ungbarna sem barst okkur fyrir nokkru til að sjá hvað hægt er að gera við henni.  Skán í hársverði ungbarna er eðlilegt fyrirbæri og stafar oftast af óþroskuðum fitukirtlum.

Með kveðju,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir
19. janúar 2005.