Spurt og svarað

19. mars 2009

Þurr húð og skán í hársverði

Ég er með 4 mánaða gamla dömu sem er öll í þurrki.  Líkaminn á henni var allur í exemi (rauð og hrjúf) fyrir ca 2 mánuðum og læknir mælti með viku skammti af Mildison, sem ég gerði og hún lagaðist nokkuð vel, hún var enn þurr samt og læknir sagði mér að bera gott rakakrem á hana.  Ég er búin að prófa Locobase, Mikael Clausen kremið, Græðarann (Sóley),krem úr jurtaapótekinu, ólífuolíu....ekkert virkar. Það sem virkar best er aloe vera gel og krem sem ég blanda saman og ber á hana (frá Forewer minnir mig að það heiti, úr heimakynningu).  En það mýkir hana bara og ég þarf að vera að smyrja hana helst 3 á dag, þetta lagast ekkert. Hún var mjög slæm af skáninni á höfðinu og hún kemur alltaf aftur.  Ég talaði við hómópata sem ráðlagði mér að taka nóg inn af hörfræolíu og skipta um þvottaefni.  Hún er einungis á brjósti.

Hefur þú einhverjar tillögur?

 


 

 Komdu sæl.

Mér heyrist þú vera búin að reyna allt sem mér hefði dottið í hug varðandi þurrkinn í húðinni.  Reyndar eru sum börn mjög viðkvæm fyrir hitabreytingum og eru rauð og þurr á veturna en lagast svo á sumrin.  Oftast er þá þurrkurinn mest í andlitinu og ekkert hægt að gera annað en vera dugleg að bera á húðina feit krem.  Ég myndi tala aftur við lækninn eða jafnvel tala við húðsjúkdómalækni fyrst þetta er svona slæmt.

Varðandi skánina á höfðinu þá er algengt að börn séu með skán fyrstu 6- 12 mánuðina og ef þetta er ekki þeim mun meira er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af.  Ef þú vilt hinsvegar reyna að losna við þetta af stelpunni þinni eru nokkur ráð til:

#  Þvo höfuðið með þvottapoka og nudda vel, jafnvel nota lúsakamb til að greiða yfir höfuðið.

#  Bera feitt krem í hársvörðinn og láta vera í hálfan dag eða yfir nótt (hafa hana með þunna húfu) og þvo svo úr með    mildu sjampói.  Nota svo lúsakambinn á eftir.  Ef skánin fer ekki öll en einhver árangur næst má endurtaka þessa meðferð.

#  Salicylvaselin 2% getur þú fengið í apóteki.  Þetta má bera á höfuð barnsins og láta vera yfir nótt (nota húfu).  Bursta svo yfir hárið eða nota lúsakamb og þvo svo úr morguninn eftir.  Húðin undir skáninni getur orðið rauð og aum þannig að ef þarf að endurtaka meðferðina er gott að láta einn dag líða á milli svo húðin nái að jafna sig. 

#  ACP smyrsli getur þú líka fengið í apóteki án lyfseðils og er stundum notað ef ekkert annað dugar.  Þessu smyrsli er nuddað í hársvörðinn og látið vera á í 6-8 tíma og svo þvegið úr.

Vona að þetta hjálpi eitthvað, kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingir.
19. mars 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.