Spurt og svarað

07. apríl 2005

Þurrmjólk eða grautur?

Sælar og takk fyrir síðuna. Ég hef nýtt mér hana mikið bæði á meðgöngu og síðan dóttir mín fæddist fyrir fjórum mánuðum. Nú er málið að ég er að byrja að vinna hálfan daginn og sú litla verður heima hjá pabba sínum á meðan. Brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel, en nú nenni ég eiginlega alls ekki að mjólka mig hvern einasta dag, því ég er ekki lausmjólka og finnst það þess vegna mjög mikið mál. Því var ég að spá í hvort þið væruð ekki sammála hjúkrunarfræðingnum í ungbarnaverndinni um að fyrst hún er orðin fjögurra mánaða, sé bara betra að hún fái graut einu sinni á dag, heldur en þurrmjólk. Einnig langar mig að forvitnast um hvort það sé ekki eðlilegt að hún sé núna farin að drekka miklu sjaldnar en hún gerði, og drekkur þá oft úr báðum brjóstunum, en hún hafði hingað til alltaf bara drukkið úr öðru brjóstinu. Ég hef svona smá áhyggjur af því að framleiðslan dragist saman þegar hún drekkur sjaldnar, þó ég reyni að segja sjálfri mér að þannig sé það örugglega ekki. Heldur ekki áfram næg framleiðsla þó hún drekki sjaldnar fyrst hún vill meira í einu?

Kærar þakkir.

...........................................................................

Sæl og blessuð vinnandi móðir.

Flott hjá þér að svona vel gengur með brjóstagjöfina og gott að síðan hefur hjálpað. Nei ég er alls ekki sammála hjúkrunarfræðingunum með grautinn eða þurrmjólkina. Það er ekki bara hér á landi sem verið er að mæla með brjóstamjólk eingöngu í 6 mánuði, það er gert í öllum heiminum. Og það er ekki verið að gera það út i bláinn, það eru ástæður fyrir því. Það er búið að finna út að aðeins þannig er barninu tryggð besta næring og möguleikar á bestum þroska. Þannig að þar sem þú hefur greinilega næga mjólk og gengur vel þá er þú í kjöraðstæðum til að klára þessa mánuði.

Þessi tími þegar mæður byrja að vinna úti er alltaf svolítið erfiður. Það er gott að þú vinnur bara hálfan daginn en ég skil að þú viljir eiga mjólk tilbúna til öryggis. Athugaðu hvort þú getir fundið aðra leið til að gera þér þetta léttara. Notaðu t.d. helgarnar til að mjólka þig 2-3 á dag. Þá áttu kannski 4 skammta tilbúna fyrir vikuna. Eða að mjólka þig stundum í vinnunni. Stundum breytast aðstæður á þessum tíma smám saman. Barnið skynjar að mamma er ekki til staðar og vill þá ekki drekka heldur bíða eftir að hún komi heim. Sjáðu svolítið til, þegar til kemur þá verður þessi tími kannski ekkert svo voðalega lengi að líða.

Jú, það getur verið fullkomlega eðlilegt að hún drekki sjaldnar og þá meira í einu. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að mjólkurframleiðslan minnki. Ef hún gerir það þá færðu að heyra það og finna á áberandi hátt.

Með bestu óskum um langa og góða brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. apríl 2005.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.