Þurrmjólk fyrir fjögurra mánaða?

22.11.2005

Sko ég á eina sem rúmlega fjögurra mánaða og hún er eingöngu á brjósti. Ég hef samt verið að velta fyrir mér hvort það sé í lagi að gefa henni þurrmjólk ef einhver annar, t.d. pabbi hennar er að passa hana, ef ég þarf að fara eitthvað frá og næ ekki að mjólka mig nóg til að það dugi henni? Og vilja brjóstabörn þá yfirleitt þurrmjólk?

......................................................................

Sæl og blessuð!

Ég mæli ekki með því að barnið þitt fái þurrmjólk ef þú mögulega getur komist hjá því. Þetta getur verið svolítið erfiður tími til að mjólka sig á og erfitt að fá almennilegan skammt. Reyndu samt. Þetta er nokkuð sem kemur með æfingunni og þolinmæðinni. Jú það er rétt hjá þér að það er oft mjög erfitt að fá brjóstabörn til að taka við þurrmjólk. Á þeirra tungu bragðast hún illa miðað við brjóstamjólkina.

Kveðjur og ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. nóvember 2005.