Þurrmjólk og upphitun

16.11.2008

Sælar og takk fyrir frábæran vef með mörgum fróðlegum upplýsingum!

Þó hef ég eina spurningu sem ég hef ekki fundið svar við og það er hvers vegna sagt er að ekki megi hita upp þurrmjólk aftur? Sjálf á ég dóttur sem hefur einungis verið á þurrmjólk og ég hef alltaf átt tilbúið fyrir sólahringin inní ísskáp og það sem hún skilur eftir í pelanum. Ég hef sett það inn í ísskáp, bætt svo við og hitað upp og henni hefur ekki orðið meint af. Eins erum við 5 systkini og vorum öll eingöngu á þurrmjólk og mamma mín gerði það sama og ekkert okkar er slæmt eftir það :)Ég helli þó alltaf ef rétt botnfylli er eftir, en ef stelpan skilur eftir um hálfan pela t.d. þá er ég ekkert að hella því :)

Kveðja, Andrea.

 


 

Sælar!

Það sem ég þekki til með að hita upp þurrmjólk aftur að það getur stuðlað að fjölgun baktería í mjólkinni sem er ekki gott fyrir barnið. Ég vil benda þér á Ráðleggingar til að forðast fjölgun hættulegra baktería í þurrmjólk á vef Lýðheilsustöðvar. Í þessum leiðbeiningum um blöndun, meðhöndlun, geymslu og notkun í heimahúsum segir að eftir hverja gjöf skuli hella niður afgangsmjólk. Þessar upplýsingar koma frá Landlæknisembættinu og frá Umhverfisstofnun og þar stendur einnig:

„Landlæknisembættið og Umhverfisstofnun vilja koma á framfæri mikilvægum ábendingum varðandi blöndun þurrmjólkur. Ungbörn og smábörn eru sérstaklega viðkvæm fyrir matarsýkingum. Í þurrmjólk geta verið bakteríur (E. Sakazakii og Salmonella) sem geta valdið sýkingum og alvarlegum veikindum eins og heilahimnubólgu, blóðeitrun eða iðrakveisu og eru dæmi um slíkt hér á landi.“

Vonandi svarar þetta þinni spurningu.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. nóvember 2008.