Þurrmjólk, ælur, loftgangur og aumur endaþarmur

07.04.2008

Sæl og takk fyrir góðan vef.

Ég hef hér nokkrar spurningar og læt hér vaða.. 

Er óhætt að geyma þurrmjólk (tilbúna pela) við stofuhita í 2-3 tíma? Er nefnilega hætt með barnið á brjósti, og gef bara pela. Og var að spá hvort það væri í lagi að geyma mjólkina inn í herberginu mínu og gefa svo þegar þess þarf. Barnið fær pela á 21/2 - 3 tíma fresti.. og það tekur á að fara alltaf fram úr að hita pela.

Er aum í endaþarmi.. eins og hann sé of þröngur. Meiði mig og fæ sár! Hvað á ég að gera..? tala við lækni?

Barnið mitt er sígubbandi! Ekki bara rétt eftir pela heldur mjög oft bara yfir allan daginn! minna á næturnar! Er þetta bakflæði? Er þetta eðlilegt?

Barnið er líka alltaf með i maganum (loftgang) svona undir morguninn.. eða já..á næturnar og svo svona þegar líða tekur anóttina.. er það eðlilegt??

með von um svör.. 

 


Komdu sæl

Það er ekki æskilegt að geyma þurrmjólk við stofuhita þar sem það eykur líkur á að bakteríur komist í hana og fjölgi sér og geti þannig valdið sýkingu hjá barninu.  Sérstaklega ef hún hefur verið hituð áður.  Ef barnið er orðið 6 mánaða eða 7 kg. getur þú hætt næturgjöfum.

Þú talar ekki um hversu langt er frá fæðingu, hvort þú hefur verið með gyllinæð á meðgöngu og eftir fæðingu eða hversu mikið þurfti að sauma eftir fæðinguna þannig að ég ráðlegg þér að tala um eymslin í endaþarminum við lækni.

Hvað er barnið gamalt?  Ung börn æla oft mikið vegna þess hve efra magaopið er óþroskað og heldur innihaldi magans ekki nægilega vel þar.  Þetta gerist sérstaklega á daginn þegar meira er verið með barnið og það hreyfir sig meira en á nóttunni.  Ef það þyngist vel er enginn ástæða til að hafa áhyggjur, en ælurnar ættu að minnka með aldrinum.  Ef það fylgir þessu óværð eða barnið þyngist ekki ættir þú að tala um þetta við lækni.

Loftgangur er eðlilegur.  Ef barnið er óvært og á erfitt með að losa loft þarf kannski að hafa það sérstaklega í huga í tengslum við gjafir og gefa því tíma til að losa loft.  Ungbarnanudd getur hjálpað og svo dropar eins og miniform eða skírnir droparnir.

Vona að þetta svari spurningum þínum.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. apríl 2008.