Færri klósettferðir en fyrr á meðgöngu

10.10.2012
Sæl
Nú er ég komin rúmar 8 vikur og finnst mér ég þurfa sjaldnar á klósettið, þurfti alltaf að fara einu sinni á næturnar og svo alveg á tveggja tíma fresti, en finnst það vera mun sjaldnar núna. Er þetta eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur af? Brjóstin eru enn aum, annars hef ég ekki haft nein önnur einkenni. Fór í snemmsónar þegar ég var komin tæpar 7 vikur og þá var allt í lagi.
Sæl og til hamingju með þungunina
Aukin þvagþörf á fyrstu vikum meðgöngu er tilkomin vegna aukins blóðflæðis til nýrna, talið er að blóðflæðið aukist um 35-60%. Fljótlega eftir frjóvgun eykst þvagmyndun um 25%, þessi skyndilega mikla þvagmyndun nær hámarki um 9-16 viku en minnkar svo eftir það. Aukin þvagþörf seinna á meðgöngunni kemur frekar til vegna þrýstings stækkandi legsins á þvagblöðruna.
Þessi einkenni ættu ekki að vera áhyggjuefni, það verður að teljast kostur að þurfa að fara sjaldnar á fætur að næturlagi til að pissa og því gott að reyna að drekka sem minnst tveimur - þremur tímum fyrir háttatíma.

Njóttu þess sem eftir er af meðgöngunni og gangi þér vel.

Bestu kveðjur,
Margrét Unnur Sigtryggsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. október 2012