Spurt og svarað

16. nóvember 2014

Fæðing í verkfalli

Sælar,

Nú er ég komin á tíma og barnið getur komið hvenær sem er á næstu dögum. Ég hef miklar áhyggjur af að fæða akkúrat á mánudag eða þriðjudag þegar læknarnir eru í verkfalli. Ef það kemur þá fáum við þá verri þjónustu en ella? Mun barnið ekki fá lækniskoðun og ef eitthvað kemur uppá í fæðingunni eru þá svæfinga og skurðlæknar i verkfalli líka? Hvað ef ég þarf keisara, veit að það er veitt neyðarþjónusta en telst til dæmis mænudeyfing sem neyð ef ég myndi óska eftir henni? Þið afsakið spurninga flóðið og ég tek það fram að ég styð lækna í sinni baráttu en mér stendur ekki á sama. Með von um svar.


 
Sæl og blessuð,

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af verkfallinu. Algengast er að konur geti fætt eingöngu með aðstoð ljósmóður en ef að upp kemur að þú hafir þörf fyrir lækni þá færðu alla þá aðstoð sem þú þarft á að halda. Barnið mun líka fá læknisskoðun í rólegheitum en auðvitað samstundis ef eitthvað er öðruvísi en best verður á kosið. Ég reikna einnig fastlega með að þú fengir mænudeyfingu ef þú þyrftir á henni að halda og svæfingalæknar væru akkúrat í verkfalli. Fæðingar flokkast undir bráðaþjónustu spítalans. Fyrirfram ákveðnum aðgerðum verður þó frestað í verkfalli.

Gangi þér vel og vonandi verður þú búin að fæða þegar að verkfalli kemur!!

 
Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.