Fæðingareitrun

24.01.2008

Sælar!

Ég er komin 8 vikur á leið með fyrsta barn og mamma mín sagði að ég þyrfti að láta vita að það er fæðingareitrun í fjölskyldunni. Mamma lenti í því og hún sagði að maður ætti að láta lækni/ljósmóður vita af því, vegna þess að þá þyrfti að fylgjast vel með mér til að koma í veg fyrir áhættu. Nú fer maður ekki í skoðun fyrr en á 11-12 viku, þarf ég ekkert að pæla í þessu fyrr en þá? Er sem sagt nóg að láta fyrst athuga mig þá? Mér skilst þetta tengist aðallega háum blóðþrýstingi eða hvað?

Takk fyrir góða síðu.


Sæl og blessuð og til hamingju með þungunina!

Ég geri ráð fyrir því að þú eigir við meðgöngueitrun sem getur í slæmum tilfellum valdið fæðingarkrampa. Það er mjög mikilvægt að þú nefnir þetta í fyrstu skoðun hjá ljósmóðurinni þinni en það er einmitt fylgst með einkennum sem geta bent til meðgöngueitrunnar í mæðraverndinni. Meðgöngueitrun kemur ekki fram fyrr en á síðari hluta meðgöngunnar og fyrstu einkennin eru yfirleitt hækkun á blóðþrýstingu og prótein í þvagi. Það hefur verið dálítið skrifað um meðgöngueitrun hér á vefnum svo það er um að gera að slá inn leitarorðinu „meðgöngueitrun“ í leitargluggann okkar og þá ættir þú að finna frekari fróðleik.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2008.