Fíflarót á meðgöngu

13.12.2008

Var búin að senda þessa fyrirspurn áður en fékk ekki svar hér svo að mig langar að gera tilraun númer 2 til þess að spurja um hvort að það megi taka inn fíflarót (dandelion) í hylkjum á meðgöngu og ef ekki hvort að teið sé þá í lagi. Þetta virkar vel við vatnssöfnun í líkamanum. Er eitthvað annað sem er mælt með?


Sæl og blessuð og afsakið hvað svarið kemur seint!

Bæði laufin og rótin af þessu algenga illgresi innhalda ýmis næringarefni s.s. A-vítamín, C-vítamín, járn, kalk og kalíum. Rótin er talin vera góð fyrir lifrina en laufin eru vatnslosandi.

Það er dálítið mismunandi hvað sagt er um notkun fíflarótar á meðgöngu en flestir telja hana örugga á meðgöngu. Þegar fíflarótin er hins vegar komin í hylki flokkast hún líklega sem náttúrulyf og það þarf alltaf að fara varlega í að taka inn lyf á meðgöngu, líka náttúrulyf. Mannslíkaminn er mjög fullkomin en að sama skapi flókinn og því geta efni sem tekin eru inn haft jákvæð áhrif á vissa líkamsstarfssemi en neikvæð áhrif á aðra. Þegar tekin eru inn hylki þá er yfirleitt verið að neyta jurtarinnar í hlutfallslega stórum skömmtum en það getur verið varasamt, sérstaklega á meðgöngu.

Það gildir allt annað um að borða jurtina eins og hún kemur fyrir eða drekka te sem unnið eru úr jurtinni. Ég myndi telja að það væri í góðu lagi að drekka te úr fíflarótum en gæta þó hófs.

Þú getur svo kíkt á fyrirspurn um bjúg þar sem talað er um vatnslosandi aðferðir.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2008.