Fit pilates á meðgöngu

24.02.2009

Komið þið sæl.


Ég er með spurningu sem varðar leikfimi í byrjun meðgöngu. Ég er komin stutt á leið, eða 5 vikur. Síðustu 6 vikur hef ég verið á leikfiminámskeiði Fit pilates, 2-3x í viku. Fit Pilates leikfimi reynir á miðsvæði líkamans, lögð er höfuðáhersla á magavöðva og djúpvöðva líkamans. Það eru miklar og erfiðar boltaæfingar, þar sem í sumum æfingum kemur þrýstingur á magann. Nú hef ég mikinn áhuga á að halda áfram og skrá mig á næsta námskeið sem verður einnig í 6 vikur. Því spyr ég hvort þessi tegund íþróttar sé æskileg fyrir barnshafandi konur, þær sem eru að ganga í gegnum fyrstu vikur meðgöngu? Ég hef smá áhyggjur þar sem ég hef áður misst fóstur.

Í leiðinni vil ég þakka kærlega fyrir ákaflega góðan og þarfan upplýsingavef. Hann hefur hjálpað mér mikið í gegnum súrt og sætt.

Kær kveðja xxxx


Komdu sæl og takk fyrir góð orð í okkar garð.

Konur mega stunda sömu hreyfingu og áður á meðgöngu.  Það sem þarf að hafa í huga er að fá ekki högg á kviðinn og forðast að stunda íþróttir sem geta leitt til þess að konan detti.  Hvorutveggja getur leitt til fylgjuloss sem er hættulegt.  Einnig er ráðlagt að vera ekki lengi í hámarkspúls við æfingar.

Kviðæfingar eru í lagi en þegar kúlan er komin eru kviðvöðvarnir að framan farnir að færast í sundur og styttast því til hliðanna þegar kviðfingar eru gerðar, þetta getur leitt til þess að konan er lengur að ná sér, kviðvöðvarnir að ná saman aftur, eftir fæðingu.


Góða skemmtun

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
24. febrúar 2009.