Spurt og svarað

22. júní 2010

Ætihvönn (angelica archangelica) á meðgöngu

Sælar og takk fyrir góðan og fróðlegan vef :)

Ég var að velta fyrir mér hvað þið ráðleggið í sambandi við inntöku á hvönn (ætihvönn, angelicu) á meðgöngu. Ég er gengin rúmlega 10 vikur og hef síðustu ár verið með mikil óþægindi í þvagblöðrunni sem lítil skýring finnst á. Ég fór til kvensjúkdómalæknis í morgun sem er vel að sér í blöðruvandamálum kvenna og hann sagði mér, meðal annars, að taka inn eina töflu af ætihvönn á kvöldin og sagði það myndi ekki vinna fóstrinu skaða. Það stendur hins vegar að óléttar konur eigi ekki að taka náttúrulyfið inn (nema læknir hafi ávísað það - en það hlýtur að hafa sömu áhrif á barnið hvort sem læknir hafi ávísað lyfinu eða ekki). Mig langar nú bara að vita af hverju það er ekki mælt með ætihvönn? Er betra að bíða inntöku þangað til eftir 12 vikna meðgöngu? Maður er orðinn svo ruglaður í ríminu í sambandi við hvað má og hvað má ekki á meðgöngu.

Eins hafa sumir læknar og náttúrulækningafólk gefið grænt ljós á hörfræolíu en hér er ekki mælt með því og svo segja aðrir að það megi taka hörfræ en ekki hörfræolíu. Já þetta getur vafist fyrir manni.

Takk kærlega.


Sæl og blessuð!

Það er ekki að undra að þetta vefjist fyrir þér. Upplýsingaflæðið er vissulega til góðs en það getur líka ruglað fólk í ríminu.

Það er þannig með alla lyfjanotkun á meðgöngu, hvort sem um er að ræða hefðbundin lyf eða náttúrulyf að það þarf að meta ávinning þess að taka inn lyfið til móts við mögulega áhættu. Stundum er konum almennt ráðið frá því að nota ákveðin lyf eða náttúrlyf vegna þess að ekki er nægjanlega mikið vitað um áhrifin sem lyfin kunna að hafa. Lyf geta haft jákvæð áhrif áhrif á vissa líkamsstarfssemi en neikvæð áhrif á aðra. Stundum er nógu mikið vitað til þess að hægt sé að segja að það ætti að vera óhætt að nota ákveðin lyf, sérstaklega þegar ávinningurinn er mikill og áhættan lítil. Auðvitað hefur lyfið sömu áhrif á meðgönguna og barnið hvort sem það er tekið í samráði við lækni eða ekki en læknir getur hjálpað til að meta hvort ávinningurinn vegi upp áhættuna (ef einhver er). Sum lyf geta haft slæm áhrif á fóstrið eða fósturþroskann, önnur geta haft óæskileg áhrif á líkamsstarfsemi konunnar, enn önnur geta haft slæm áhrif á meðgönguna, t.d. valdið samdráttum. 

Á þessum vef reynum við að rökstyðja og skýra svör okkar eins vel og hægt er en stundum er ekki neinar góðar skýringar að finna. Í svarinu um hörfræolíuna er reynt að skýra út hvers vegna við getum ekki mælt með henni en svo verður hver að taka ákvörðun fyrir sig út frá þeim upplýsingum sem hann hefur.

Samkvæmt alfræðivefnum Wikipedia hefur ætihvönn (angelica archangelica) örvandi áhrif á ónæmiskerfið og er mjög virk gegn veirum. Á nokkrum vefsíðum, m.a. á breska vefnum BabyCentre er angeilca nefnd sem ein af þeim jurtum sem ætti að forðast á meðgöngu vegna þess að hún getur haft örvandi áhrif á samdrætti í leginu og valdið blæðingu. Angelica virðist geta gagnast konum á marga vegu, t.d. er hún talin geta komið reglu á tíðablæðingar, hjálpað konum sem finna fyrir hitakófum o.fl. en er ekki talin æskileg á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. júní 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.