Fjallaferðir

11.03.2015

Góðan dag. Ég er 41 árs og var að komast að því að ég væri komin 4 vikur á leið. Þannig er mál með vexti að ég er í mjög stífri þjálfun í björgunarsveit og var að velta því fyrir mér hvort ég þyrfti að hætta í bili. Þetta eru mjög langar og strangar fjallgöngur í alls konar veðrum (allt uppí 12 tíma göngur í senn), jöklagöngur og klifur. Þá er líka sofið í tjöldum eða snjóhúsum í hvernig veðrum sem er. Mig langar ekki að hætta en grunar að þetta sé of mikið þrátt fyrir að ég sé í góðu formi fyrir. Hvað mynduð þið ráðleggja mér að gera?

 

Heil og sæl, í raun er það þannig að þú getur gert það sem þú treystir þér til en verður alltaf að hlusta á líkama þinn. Mjög algengt er að konur finni til mikillar þreytu í upphafi meðgöngunnar og ég ráðlegg þér að hlusta á það og fara ekki á erfiða æfingu ef þú ert mjög þreytt. Þegar lengra kemur fram í meðgönguna og þreytan minnkar er þyngdarpunktur þinn orðinn annar og maginn ef til vill farinn að „flækjast“ fyrir þér við klifur og erfiðar fjallgöngur. Það er líka þannig að fyrir hormónaáhrif breytast liðböndin í líkamanum og verða eftirgefanlegri og þá aukast líkur á að þú misstígir þig aðeins. Hafðu skynsemina að leiðarljósi og njóttu meðgöngunnar. Gangi þér vel.

 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
11. mars 2015