Spurt og svarað

14. janúar 2013

Fjarlægja lykkju ólétt

Ég er með lykkjuna og hef verið með hana í um það bil ár og þetta er í annað sinn sem ég verð ólétt. Lykkjan sá um að eyða fyrra en grunar að ég hafi verið komið 6 til 8 vikur þá og núna er ég vist komin c.a 8 vikur. Get ég látið taka lykkjuna án þess að skaða fóstrið. þetta er koparlykkja og ja ég vissi ekki að hún virkaði þannig að þú gætir orðið ólétt en misst það.
Ein áttaviltSæl

Þegar koparlykkjan er til staðar í legi losar hún frá sér lítið magn af kopar jafnt og þétt í legholið. Þessi koparlosun truflar sæðisflutning og frjóvgun, einnig hindrar hún að frjóvgað egg nái að festast við legvegginn.

Koparlykkjan er talin nokkuð örugg getnaðarvörn þegar hún er rétt notuð, þ.e. að konan þreifi eftir þráðunum reglulega til að tryggja að lykkjan sé til staðar. Fyrsta árið eru líkur á getnaði 0,6%, næstu fimm árin aukast líkur á getnaði í 1,6% en á áttunda til 12 ári eru líkur á getnaði 2,2%. Í heildina eru líkur á getnaði minna en 1 af 100 konum á ári nema hjá konum sem eru yngri en 25 ára þar sem líkur á getnaði eru aðeins meiri en það er líklega vegna þess að þær eru frjórri en eldri konur.

Í mörgum tilfellum er hægt að fjarlægja lykkjuna eftir að þungun uppgötvast án þess að valda skaða en það fer allt eftir staðsetningu lykkjunnar og best er að fjarlægja hana sem fyrst. Í sumum tilfellum er ekki hægt að fjarlægja lykkjuna og meðgangan heldur áfram þrátt fyrir lykkjuna. Í þeim tilfellum eru konur í mæðravernd á Landspítalanum. Ég mæli eindregið með að þú hafir sambandi við göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum og fáir tíma í skoðun til að athuga möguleikann á að fjarlægja lykkjuna.

Gangi þér vel.

 

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. janúar 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.