Spurt og svarað

25. janúar 2013

Fjörfiskur sem er búinn að vera í 3 mánuði

Sæl
Ég er komin 27 vikur á leið og er búin að vera með stöðugan fjörfisk í vinstra auganu í 3 mánuði, nú er hann einnig kominn í hægra augað og er búinn að vera þar í um það bil 2 vikur. Ég finn fyrir rosalega mikilli streitu og kvíða og er með mjög mikla verki um allan líkamann, svona streitu verki. Ég má ekki við neinu. Bara það að klæða mig í föt veldur mer spennu og streitu.
Ég hef verið með streitu og spennu í líkamanum í mjög langan tíma og ég er voða hrædd um að þetta allt hafi áhrif á barnið mitt og geti ýtt undir fyrirburafæðingu. Ég er einnig greind með vefjagigt Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?
Bestu kveðjur.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Fjörfiskurinn sem þú talar um, er eitt af einkennum vefjagigtarinnar og því kannski eðlilegur hluti af þínu ástandi. En þú talar um mikla streitu, verki og kvíða, sem segir mér að vefjagigtin þín sé að hafa mikil áhrif á þig á meðgöngunni.
Rannsóknir hafa sýnt ákveðin tengsl á milli streitu og fyrirburafæðingar og því mikilvægt fyrir þig að reyna að minnka streituvaldana í kringum þig. Það kemur ekki fram í fyrirspurninni hvort þú sért að vinna, en ef þú ert enn að vinna, þá þarftu að minnka vinnuna eða jafnvel hætta að fullu.  Það er mikilvægt fyrir þig að slaka á eins oft og þú getur, stunda einhverskonar líkamsrækt (sund er mjög góð líkamsrækt á meðgöngu), borða hollt og reglulega og síðast en ekki síst að fá nægan svefn. Ef þú átt kost á, skaltu þiggja hjálp frá þínum nánustu sem geta hjálpað með heimilið og eldri börn (ef þú átt börn fyrir).
Núna er tíminn til að vefja þig inn í bómull og slaka á það sem eftir er meðgöngunnar.  Mikilvægt er að þú vitir að vefjagigt getur versnað eftir meðgöngu og þá verða þessir hlutir sem nefndir eru að ofan ekki minna mikilvægir.
Í  sambandi við kvíðann sem þú nefnir, myndi ég ráðleggja þér að ræða það við læknirinn þinn í mæðraverndinni.


Gangi þér sem allra best,
Arndís Pétursdóttir,
ljósmóðir

25. janúar 2013
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.